30 mars 2008

Lotan hálfnuð..

..og ég hefði átt að lesa meira og þrífa minna þarna um daginn. Prófið á föstudaginn gekk ekki alveg jafn vel og ég hefði viljað.. samt ekkert hræðilega. Þannig að nú er ég bara á bókasafninu frá morgni til kvölds - þýðir ekkert að læra heima hjá sér. Seinna prófið er á miðvikudaginn.

Krummi bróðir kom við hjá okkur í vikunni. Færði mér ársbirgðir af íslensku nammi eins og vanalega þegar hann kemur við :) Klaus benti mér pent á að nú ætti ég að reyna að leyfa þessu að endast eitthvað lengur en síðast, kannski tvær vikur eða svo!! Piff.. veit ekki hvað maðurinn er að rugla..og hann veit sko ekkert hvað hann er að tala um! Hann fær að kynnast þessu þegar ég neyði hann einhvern tímann til þess að flytja til Íslands með mér.... ef það veður ekki allt farið á hausinn þarna upp frá það er að segja.. ;)

sd

24 mars 2008

Prófþrif

Það kannast nú flestir við það þegar prófalestur er í gangi þá hellist yfir mann óstjórnleg þörf til þess að gera allt aðra hluti - meira að segja að þrífa!! Ég hef sjaldan verið jafn öflug eins og núna.. í þrifunum þ.e.a.s. ekki próflestrinum! Ég er t.d. búin að:
- Þurrka ryk úr gluggum og af gólflistum
- Þrífa ísskápinn
- Skipta um á rúminu
- Þvo tvær þvottavélar
- Handþvo tvær peysur
- Þrífa baðherbergið
- Mála aukaumferð á hurðarkarminn inná baði
- Ryksuga
- Hlaupa þrjár ferðir uppá loft með verkfæra og málningardót
- þurrka af öllum hurðum og eldúsinnréttingu
- Þrífa vaskaskápinn

Svei mér þá ég held ég þurfi ekkert að þrífa aftur fyrr en einhvern tímann í sumar!! ;)

En nú er Klaus minn á leiðinni heim - eða það vona ég. Það er búið að ganga á ýmsu hjá honum síðasta sólarhringinn. Í gær átti að keyra hann á flugvöllinn í Panama sem er 5-6 tíma keyrsla frá búgarðinum sem hann var á. Þaðan átti hann að fljúga til Guatemala, hitta félaga sinn sem var samferða honum út, gista eina nótt og þaðan heim í dag í gegnum Atlanta og París. Nema hvað.. bíllinn bilar á leiðinni á flugvöllinn og hann þarf að húkka sér far á flugvöllinn!! Í Panama sjáiði til!! Hann missti samt af fluginum sínu og ekkert annað flug í boði þann daginn. Eina flugið sem hann fékk var í morgun með millilendingu í Costa Rica. Pælið í rugli!!
Gemsinn hans var hálf batteríslaus þannig að upplýsingarnar hafa verið af skornum skammti. Þeir eru náttúrulega sjö tímum á eftir þarna þannig að hann ætti að vera að lenda fljótlega í Guatemala.. Ég hef ekkert heyrt síðan í morgun enda síminn hans líkalega dauður núna. Hann náði að taka töskuna með sem handfarangur þannig að það hjálpar heilmikið á leiðinni Panama-Costa Rica-Guatemala...
En mikið er ég fegin að hann hafði vit á því að vera ekkert að láta mig vita af þessu fyrr en eftir að hann var kominn heill á húfi á flugvöllinn.. ég hefði gjörsamlega tapað mér úr stressi hefði ég vitað af honum á puttanum einhvers staðar í Panama!! :( Ég geri nú ráð fyrir að sá sem var að keyra hann hafi hjálpað houm að redda sér fari en mér er sama.
Það tekur hann semsagt fimm flug að komast heim - úff - hann verður alveg búinn á því.. en mikið það verður gott að fá hann heim!

jæja.. langaði bara að deila með ykkur þrif-æðinu og hrakfallasögunni hans Klaus.
Bækurnar bíða..

sd

20 mars 2008

Gleðilega Páska!

Hér er undarlegt páskaveður.. á kvöldin og yfir nóttina þá er mjög vetrarlegt, snjór og allt! í fyrsta skipti í allan vetur! En svo vakna ég við sólina inn um gluggann uppúr kl sjö á morgnana, snjórinn hverfur um leið og það er yndislegur vorfílingur úti allan daginn..svo snjóar aftur um kvöldið. Búið að vera svona í nokkra daga.. Ef þetta á að vera veturinn í ár þá er ég nokkuð sátt ;)

Annars verð ég ekki alveg jafn einmana um páskana og ég óttaðist. Það er ennþá planið að liggja bara yfir bókunum en ég gerði ráð fyrir að Mie og Rasmus færu til Jótlands yfir helgina. En svo er ekki, þannig að ég fer allavega til þeirra á Páskadag - í smá páskamat og huggulegheit. Mikið er ég fegin.. ;)

Klaus dettur inn í GSM samband hér og þar þarna niðurfrá þannig að ég er farin að heyra aðeins meira frá honum núna. Nú er hann kominn til Panama. Mér skilst að hann hafi hitt forseta landins í gær. Það var nú ekki á planinu áður en hann fór út og ég vona að þetta hafi ekki verið mjög formlegt enda enginn klæðnaður til þess með í töskunni hjá honum ;) Hann er oft mjög þreyttur þegar hann skrifar mér en samt alveg í skýjunum með ferðina.

En jæja.. bækurnar bíða.

Hafið það sem allra best um páskana..
sd

18 mars 2008

Tuð!

Þetta ár hefur ekki farið vel af stað þegar kemur að peningabuddunni. Fjórar ferðir til tannlæknis í janúar, tölvan hrundi í febrúar og nú er íslenska krónan algjörlega farin til fjandans!! :(

Hvað er málið eiginlega??

Námslánin rýrna svo mikið þegar ég millifæri þau hingað yfir að ég get næstum því sleppt því. Mikið er ég þakklát fyrir vinnuna mín þessa dagana!

Svo er líka orðið töluvert dýrara að lifa hérna svona almennt síðan ég flutti fyrir tveimur árum. Sérstaklega þegar kemur að matarinnkaupum. Þar er nú smá verðbólga í gangi hér líka þó svo að danskir bankar séu meira uppteknir við að ræða fjárhagslegan vanda annarra landa en þeirra eigin.

Þannig að ég vara ykkur við sem eru á leiðinni hingað á næstunni; aukin verðbólga hér og íslenska krónan í tómu rugli.. Kaupmannhöfn er alls ekki jafn hagstæð lengur fyrir Íslendinga. Kæmi mér ekki á óvart ef það dregur úr verslunarferðum hingað frá Íslandi. Shitt - hvað gerir H&M þá?? ;)

jæja.. ekki meira tuð í bili.

..og ekki nein "iss piss hættu þessu væli!" komment takk fyrir pent! ;)

knús!

16 mars 2008

jæja þá..

nú er enn einum fjórðungnum lokið í skólanum og ég að byrja að undirbúa prófin. Við skiluðum inn 30 síðna hópverkefni á föstudagsmorgun og vá hvað það var mikill léttir!! Síðustu dagarnir fyrir skil voru ansi langir og við vorum öll hálf sofandi í síðasta fyrirlestrinum á föstudaginn.
Svo fór ég eftir tíma að hitta Sonju Grant. Hún var í stuttri vinnuferð hérna og við náðum að skreppa saman á The Coffee Collective. Alltaf svo gaman á hitta Sonju.. verst hvað það er alltaf langt á milli hittinga hjá okkur.
Síðan var planið hjá mér mjög agað. Ætlaði heim að þrífa svo ég gæti samviskusamlega hafið lesturinn á laugardagsmorguninn án nokkurra afsakana um að fyrst yrði nú að þrífa höllina... En Casper og Linus plötuðu mig til að skála í víni eftir lokun á kaffibarnum og koma svo með þeim á smá pöbbarölt niðrí bæ. Marete kærasta Caspers bættist í hópinn ásamt fleirum og á endanum var ég ekki komin heim til mín fyrr en hálf þrjú um nóttina. Þannig að það var nú lítið um lestur í gær, þurfti vinna upp svefnleysi vikunnar... og það er svo sem bara allt í lagi. Við skemmtum okkur mjög vel á föstudagskvöldið og það hefði nú verið hálf sorglegt hefði ég bara farið heim að þrífa eftir verkefnaskil og fjórðungslok!! ;)

Það heyrist voða lítið frá Klaus enda lélegt gsm samband þar sem hann er en hann reynir að senda e-mail ef hann kemst í tölvu. Það er vel hugsað um þá þarna þannig að ég hef litlar áhyggjur. Hann fékk skýr skilaboð um að kaupa eitthvað fallegt handa mér fyrst að ég þarf að hanga hérna ein heima og það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því... svona miðað við afríska búninginn sem hann keypti handa mér í Kenýa!! Ó mæ god! Og hálmenið sem hann keypti í Nicaragua.. ;)

En allavega.. læt þetta duga í bili. Hafið það gott elskurnar.

sd

07 mars 2008

Komin í samband við heiminn aftur!!

Ó en yndislegt! Er ekkert smá ánægð með nýju tölvuna mína. Keypti hvíta MacBook sem er minni og léttari en mun stærri og hraðari he he.. Hún er algjört æði og Klaus er að drepast úr afbrýðisemi ;)

En það er nú samt ekkert brjálæðislega mikið að frétta síðan síðast. Síðasta mánudag og þriðjudag vorum við í Herning á Jótlandi þar sem fram fór Danska Kaffibarþjónamótið. Ég var að dæma og Klaus var kynnir. Keppnin var vel skipulögð og allt gekk eins og í sögu. Søren Stiller vann loksins. Hann var orðinn frægur fyrir að lenda alltaf í öðru sæti ár eftir ár en loksins tókst þetta hjá honum. Hann stóð sig líka mjög vel. Það keppti enginn frá The Coffee Collective en það voru tveir sem notuðu espressoblönduna þeirra og þeir urðu í öðru og þriðja sæti - og annar þeirra Mikkel Otto varð Sjálandsmeistarinn. Þannig að Klaus og co. voru mjög sáttir með niðurstöðurnar.

Það er nóg að gera í skólanum. Styttist í skilafrest á hópverkefni sem við erum að vinna í núna þannig að helgin verðr löng og ströng.
Klaus stingur af til Guatemala og Panama um miðja næstu viku þannig að þá hefst maraþon próflestur hjá mér - um að gera að nota tímann vel þegar maður er laus við alla "truflun".. ;)

En að lokum.. Elsku besta mamma mín á afmæli í dag!! Til hamingju með daginn elsku mamma! Ég heyri betur í þér á Skypinu seinna í dag.

nóg í bili - læt heyra í mér aftur fljótlega. Ég er allavega límd við tölvuna þessa dagana! ;)

ta ta..
sd


P.s. Sveina, sófinn er all yours 22.júní!