29 júní 2007


Smá blaður..


Aðalplönin mín fyrir sumarið (fyrir utan ferðalögin) voru að njóta sumarblíðunnar og liggja í sólbaði, finna íbúð og æfa mig í dönsku. Ég er búin að finna íbúðina..hér hefur rignt nánast non-stop í tvær vikur og ég er ein í kotinu og flestir sem ég þekki í sumarfríium eða á kafi í vinnu.

Undanfarna daga er ég búin að afreka að hanga inni og horfa á a.m.k. 50 þætti af Grey's Anatomy á TV Links, er inni í öllu slúðrinu sem birtist á People.com og augnbrúnirnar mínar hafa aldrei verið jafn vel plokkaðar.

Og ég er að skrifa CV svo ég geti sótt um vinnu með skólanum.. Ég verð 31 árs á þessu ári og ég hef aldrei áður skrifað CV vegna atvinnuumsóknar... eða bara þurft að skrifa formlega umsókn vegna vinnu! Pælið í því!! Á Íslandi hef ég alltaf fengið vinnu í gegnum fólk sem ég þekki eða kannast við.. maður hringir bara eða mælir sér mót við einhvern og spjallar aðeins.. Dísess kræst hvað ég er spillt! Hérna er ég bara enn einn útlendingurinn í atvinnuleit sem talar lélega dönsku!

Þetta er nú hálf vandræðalegt ;)

25 júní 2007

Húsnæðismálin að reddast :)



já loksins er eitthvað að gerast.. Við höfum ákveðið að festa kaup á "andelsbolig" hér á Amager, rétt hjá þar sem við erum núna :) Ég er ferlega ánægð með þessa ákvörðun og hlakka mikið til að koma mér almennilega fyrir.

Andelsbolig þýðir að þá er maður í raun að kaupa hlut í sameignarfélagi um heilt fjölbýlishús eða bara nokkra stigaganga, þau eru mjög misstór. Þá er íbúðaverðið töluvert lægra en venjulegt fasteignaverð og einnig er greitt mánaðargjald sem fer í alls konar viðhald, tryggingar og fasteignaskatt. Það getur verið mjög erfitt bara að fá að skoða svona íbúðir því yfirleitt eru biðlistar eftir þeim og ef þær eru auglýstar hafa miljón manns samband og bjóða jafnvel seljandanum peninga undir borðið til þess að fá íbúðina. En við vorum fyrst til að koma og skoða íbúðina og vissum um leið og við gengum inn að þarna gætum við sko alveg búið og málið var afgreitt!

Þetta er mjög dæmigerð 2ja herb. dönsk íbúð, með fallegu trégólfi og baðherbergi sem er 1,5 fm2! Það er nú samt pláss fyrir sturtuhengi þannig að maður er ekki í sturtu yfir bæði vaskinum og klósettinu. Hún er ekki nema 57 fm2 en vel skipulögð og björt. Nýtt eldhús (2ja ára) með innbyggðum ískáp/frysti, gaseldavél og uppþvottavél... og nóg pláss fyrir espressóvélina!! ;) Bara fínustu byrjendakaup og dugar okkur sko alveg í nokkur ár!!
Til þess að byrja með ætlum við bara að mála. Svo verður kannski freistandi að opna betur hurðirnar inní eldhúsið og stofuna (svipað eins og ég gerði á Ránargötunni) og gera eitthvað við blessaða baðherbergið..en það er alls ekki nauðsynlegt strax.

Við fáum afhent 1.sept sem hentar mjög vel.. við erum alltof upptekin af ferðalögum í sumar til að standa í þessu fyrr.. og Mie er mjög ánægð með að við flytjum ekkert frá henni fyrr en Rasmus er komin heim.

Þetta verður nú alveg drullustrembið.. aldrei auðvelt að borga af íbúð á námslánum! Þannig að ætli ég reyni nú ekki að finna mér einhverja aukavinnu með skólanum og minnki nú aðeins öll þessi ferðalög.. maður getur víst ekki allt!

Það er því ágætt að ég nái að heimsækja þrjár heimsálfur áður en frelsinu lýkur ;) Suður Afríka var nefnilega að bætast við ferðalagalista sumarsins!! Klaus var ráðinn í meiri vinnu þar og vinnuveitandinn bauð mér með. Ég næ því að ferðast til S-Afríku, Japan og Mexíkó (og auðvitað Íslands) á næstu þremur mánuðum.. Svo tekur raunveruleikinn við og kapphlaupið við að borga reikningana sína!! ;)

ta ta..

sd

p.s. síminn minn en dauður..gæti þurft að fá mér nýtt númer, læt ykkur vita.

18 júní 2007

Er ekki kominn tími á blogg?

Það er svo sem ekkert mikið að frétta.. Sumarfríið mitt byrjaði með þvílíkri hitabylgju, glampandi sól og 25-30 stiga hita nokkra daga í röð. Hér var grillað kvöld eftir kvöld, legið í sólinni, vinir heimsóttir í Malmø (grillað þar líka) og ölið þambað. En svo er líka búið að rigna stanslaust í fjóra daga núna þannig að freknurnar tíu sem ég náði mér í í hitabylgjunni eru horfnar! ;)
Ég hef samt notað tímann í rigningunni vel. Sótti sumavélina fínu í geymsluna og er búin að breyta nokkrum flíkum sem ég var ekki nógu ánægð með og notaði því aldrei. Gerði pils úr einum kjólnum..annar kjóll breyttist í topp og tveir sumarkjólar voru þrengdir.. ó hvað ég er ánægð með saumavélina mína!! :)

En það er gott að komast í smá frí frá skólanum.. síðasta prófið var hræðilega langt og erfitt en niðurstöður fást ekkert fyrr en eftir ca. 4 vikur... og því ekkert hægt að gera við því núna annað en að njóta lífsins.

Luna greyið (11 ára) er inni á spítala. Hún slasaði sig í fótbolta í gær og eftir margra klukkutíma prósess á slysó kom í ljós að hún braut upphandlegg svo illa að hún þurfti í aðgerð til að koma brotinu saman aftur. Þær mæðgur þurftu því að gista á spítalanum. Jonas (5 ára) er því með okkur í dag..og honum finnst sko ekkert leiðinlegt að hanga með Klaus frænda sínum! Málið er að eftir að Rasmus fór aftir til Afganistan eftir fríið að þá er Jonas búinn að vera rosa lítill í sér.. er ekki alveg að skilja hverju pabbi hans þarf að vera að þvæla þetta. Þannig að þegar Klaus kom frá Afríku þá tók Jonas algjöru ástfóstri við hann og núna má sko t.d. enginn hátta hann á kvöldin nema Klaus! Mie finnst þetta sko bara fínt og ég held að Klaus hafi bara lúmskt gaman af þessu ;) Ég vona að það fari ekki alveg með litla skottið þegar Klaus fer til Mexíkó á sunnudaginn...

Annars er ég sennilega líka á leiðinni til Mexíkó! En ekki fyrr en í september..til að dæma á Mexíkóska kaffibarþjóna mótinu. Þannig að ég er strax byrjuð að plana skróp á næsta skólaári..ehhh..

En allavega.. ég á skemmtilegt stefnumót í dag! Guðný Ósk systurdóttir mín er Kaupmannahöfn! 12 ára skvísan! Hún er að heimsækja ættingja úr föðurfjölskyldunni sem búa rétt fyrir utan Köben. Við hittumst reyndar líka á föstudaginn og ég aðstoðaði hana við smá powershopping í H&M. Í dag ætlar Ósk (föðursystir hennar) að skutla henni í bæinn til mín svo við getum hangið aðeins og svo fer ég með henni í lestinni til Solrød Strand og við borðum saman hjá Ósk og familíu - huggulegt plan ekki satt?

Þá segi ég bara til hamingju með gærdaginn elskurnar! ;)

sd

07 júní 2007

24 tímar í sumarfrí!! ;)

..og tæplega það meira að segja og samt finnst mér ég ekki neitt vitrari síðan síðast þrátt fyrir að hafa hangið yfir bókunum. (?) Úti er sannkölluð bongóblíða og það verður yndislegt að komast í lunch með stelpunum úr skólanum á morgun, strax eftir prófið. Ég hjólaði aðeins í gegnum miðbæinn í gær og öll kaffihús og veitingastaðir með borð úti voru troðfull og æðisleg stemmning. Í gær varð ég að láta mér nægja að hjóla bara framhjá en á morgun verð ég akkúrat þarna!! Með eitthvað gott að borða og kalt hvítvín!! ;) Svo ætla ég að fara og kaupa mér sumarkjól í tilefni dagsins :) Um kvöldið er nefnilega smá hittingur og þemað er 'sumarkjólar og opnir skór'...

Svo er elsku Klaus kominn heim :) Og kom meira að segja degi fyrr en ég átti von á. Eitthvað hafði ég ruglast með dagsetningar og hann kom heim gærmorgun eftir velheppnaða ferð til S-Afríku og Kenýa. Æ hvað er gott að hafa hann heima núna - í 3 vikur eða svo því þá stingur hann af til Mexco City. Við ætlum að hafa það ferlega huggó um helgina.. það er spáð bongóblíðu og helst viljum við fara bara í einhvern garð með góðgæti og svalandi drykki og hanga þar og láta sólina sleikja okkur.

Æ hvað lífið er ljúft!

sd

04 júní 2007

4 dagar í sumarfrí!!

..og ég get ekki beðið! Er alveg komin með gubbuna fyrir þessum lestri og er öll orðin meira og minna skökk og stíf í skrokkinum. Gamla greyið! ;)

Annars er alls ekki neitt að frétta.. bara komin með algjörlega nóg af því að hanga svona með sjálfri mér. Mér finnst ég sko frekar glataður félagsskapur!! Mér verður nú samt meira úr verki af því að læra ein því ég fer bara eitthvað að kjafta ef ég læri of mikið með öðrum. Ætla samt að hitta eina bekkjarsystur mína á morgun svo við getum borið saman bækur okkar. Ó já, eins og þið sjáið, margt spennandi að gerast!!

Var í prófi í morgun.. gekk bara skítsæmilega. Og ég er hætt að svara sms-unum frá Klaus þar sem hann segir frá ævintýrum sínum í Kenýa. Hef sko engan áhuga á safari ferðum, viltum ljónum, fílum eða gíröffum... oj bara. Hverjum er ekki sama??! ;)

pirr pirr pirrr... :(

sd