28 maí 2008

Nú er ég hætt..

..að lesa! Próf kl.9 í fyrramálið í alþjóðlegri viðskiptalögfræði. Get ekki beðið eftir að þetta sé búið :) Samt búið að ganga alveg allt í lagi. Tók þá ákvörðun að reyna ekki einu sinni að læra heima - það hefði bara endað í einhverjum óþarfa hreingerningaræði...reyndar held ég að 'óþarfa' sé kannski ekki rétta orðið eins og staðan er núna.. ehmm ;) Svo skildi ég líka tölvuna eftir heima - það hjálpaði heilmikið. Er held ég bara búin að taka viðskiptalögfræðina í sátt, ýmislegt áhugavert þarna inn á milli. Reyndar skiptir stundum engu máli hvað ég er búin að læra mikið, oft tæmist hausinn hreinlega um leið og prófdómarinn gefur okkur merki um að byrja - og það kviknar ekki á aftur fyrr en stuttu eftir að prófi er lokið..dæs..

En þessa dagana sér maður uppdressaða nemendur út um allt í skólanum, á leiðinni eða nýbúnir að verja útskriftarverkefnin sín.. stundum bíða nokkrir fjölskyldu meðlimir fyrir utan stofuna með kampavín og blóm. Trúi varla að ég verði loksins í þessum sporum eftir ár!! Mikið ofboðslega verð ég ánægð þegar þetta er búið!! Það var nú auðvitað planið að fara beint í master eftir þetta.. svei mér þá ég veit það ekki lengur, er þvílíkt að klepra á þessu núna - ákveð það bara þegar að því kemur, eitt skref í einu.

ta ta,
sd

18 maí 2008

Próflestur framundan..

Fyrir utan einstaka vinnudaga inná milli þá eiga næstu 10 dagar að vera algjörir lestrardagar, með 150% einbeitingu og engri truflun!! ehhh.. ein svolítið bjartsýn!! ;) Það má allavega byrja að rigna núna svo ég geti haldið mig innandyra fram til 29.maí.

Sumarið lítur vel út.. á von á fullt af heimsóknum. Guðný vinkona stoppar í millilendingu frá Balí í byrjun júní. Seinnipartinn í júní verður heimsmeistaramót kaffibarþjóna haldið hér í Kaupmannahöfn sem þýðir að bærinn verður fullur af kaffivinum okkar frá öllum heiminum - þetta verður þvílíkt stuð! Í lok júní stoppar svo Sveina í einhverjar nætur á leiðinni til Finnlands :)

Ég verð reyndar ekki alveg laus við skólann í sumar. Ákvað að taka eitt fag í sumarskóla í júlí. Ég vissi að ég fengi aldrei 100% vinnu í sumar þar sem við erum svo margar skólastelpur í vinnunni sem vilja fleiri vagtir í sumar að ég ákvað bara að taka einn kúrs og hafa þá bara aðeins minna að lesa næsta haust og geta þá unnið aðeins meira með... jafnar tekjur eru lykilatriði þessa dagana ;)

En það verður nú samt gaman í júlí líka! Vigdís heimsækir mig um miðjan mánuðinn og í lok máðarins förum við til Jótlands í stórafmæli. Mamma Klaus verður sextug og það er búið að bjóða allri ættinni að koma og tjalda úti á túni í tilefni dagsins! Eða svona næstum því ;) þetta verður mjög huggó á danska vísu!

Við tökum svo tveggja vikna frí um miðjan ágúst.. við erum ekki alveg búin að plana það. Okkur langar svakalega mikið að nota hluta þess til að gera eitthvað sem er ekki tengt kaffi og án allra fjölskyldu heimsókna!! he he.. ekki illa meint. Okkur langar helst að fljúga til Parísar, kíkja aðeins á borgina og keyra svo eitthvað út í franska sveit og gista nokkrar nætur á litlu gistiheimili eða bændagistingu. Reynum að plana þetta almennilega þegar ég er búin í prófinu.
Svo er allavega stefnan hjá mér að koma til Íslands í lok sumars.. vonandi kemst Klaus með þetta skiptið.

Þannig að það er sko nóg að gera næstu mánuði. Verst hvað sumarið líður alltaf hratt - væri til í að hafa þetta alltaf svona!

knús,
sd

11 maí 2008

Stór dagur í dag :)
Kristrún Hrafnsdóttir og Guðný Ósk Karlsdóttir systkinadætur mínar munu báðar fermast í dag í Munkaþverákirju í Eyjafjarðarsveit. Innilegar hamingjuóskir til þeirra í tilefni dagsins! Við vonum að dagurinn verði nákvæmlega eins og þið óskið ykkur og gott betur það.

Ef bara Iceland Express væri byrjað með beina flugið til Akureyrar þá hefði ég sko splæst á mig helgarferð.. en nei nei.. það byrjar 15.maí :( ekkert smá svekkt yfir þessu. En maður fær víst ekki allt sem maður vill.

Annars er frekar lítið að frétta eins og bloggletin gefur að kynna. Ég hefði nú getað bloggað veðurfréttir alla vikuna en ákvað að kvelja ykkur ekki með því! Það eina sem ég segi ykkur er að lestrarplan helgarinnas er algjörlega farið til fjandans sökum blíðunnar og sólarvörnin er borin á í þykkum lögum annars væri ég löngu brunnin til ösku...

;)