09 maí 2009

jæja.. bara kominn maí og rúmlega það!!
er einhver sem kíkir hérna inn ennþá??


En það er allavega allt fínt að frétta úr kotinu :) Áttum yndislega páska á Jótlandi þar sem við tróðum í okkur dýrindis mat og nutum góða veðursins. Ég reyndi að lesa inn á milli máltíða - bæði hjá mér og Ísak! - Klaus spilaði við bræður sína og krakkana og Ísak hreinlega svaf af sér alla páskana! Hann var sko þvílíkt að fíla ferska sveitaloftið, fuglasönginn og svínaskítafíluna frá nágrönnunum :)

Þegar heim var komið tók við hundleiðinleg törn hjá mér. Strax eftir páskana hófst 72 tíma heimaverkefni og í vikunni á eftir var 4 tíma skriflegt próf. Klaus var í fríi og það hjálpaði heilmikið. Ísak var reyndar ekkert of samvinnuþýður.. hann hefur hreinlega fundið á sér að mamman var eitthvað taugaveikluð þessa daga. Hann svaf lítið á daginn og var sísvangur. Þar að auki minnkaði mjólkin mikið hjá mér, hreinlega út af stressi. Drengurinn var semsagt ekkert of kátur með mömmu sína þessa dagana. Hann fékk smá þurrmjólk með á meðan þessu stóð og svolgraði henni niður eins og ekkert væri. Þannig að það er óhætt að segja að einbeitingin hjá mér var alls ekki nógu góð enda gengu prófin alls ekkert nógu vel. Ég fæ nú bara aulahroll þegar ég rifja upp sumt sem ég skrifaði á síðustu stundu í þessu blessaða heimaprófi!!! En það verður nú einhver að skemmta kennaranum ekki satt??? Ef ég næ þessu þá verð ég voðalega heppin..en ég nenni ómögulega að vera með einhverja eftirsjá. Sjálfsagt hefði ég getað skipulagt mig betur og lesið meira eftir að Ísak fæddist.. og auðvitað er það fullmikil bjartsýni að halda að ég geti náð svona stórum kúrs án þessa að mæta í tímana.. EN ég ætla bara að búast við því versta og vona það besta!! :)

Lífið er allavega búið að vera voðalega ljúft eftir að þessu lauk :) Loksins alvöru fæðingarorlof!! Langir göngutúrar með vagninn, garðhittingar í góða veðrinum með Þórey og Óskar, hangið á kaffihúsinu hjá Klaus eða bara kúrað uppí rúmi með Ísak þegar það er kalt og blautt úti :) Ekki slæmt!

Brúðkaupsplönin mjakast áfram hægt og rólega.. það fer ekkert á milli mála hvernig forgangsröðin er á þessu heimili, við erum hvorki að pæla í fatnaði eða hringjum.. EN það er búið að redda fyrsta flokks espressóvél, kvörn og afbragðskaffibarþjónum!!! :) Þannig að þó við endum í gömlum lufsum og hringjalaus þá fáið þið alla vega fyrsta flokks kaffi!!! :)

Ísak stækkar ótrúlega hratt. Það er sko ekkert ponsaralegt við hann lengur enda er hann búin að tvöfalda fæðingarþyngd sína og vel rúmlega það. Var 5800grömm í 3ja mánaða skoðun. Hann er duglegur að hjala og brosa, og er meira að segja byrjaður að hlægja líka þegar virkilega vel liggur á honum. Ég reyni að setja inn nýjar myndir á síðuna hans á morgun eða hinn.

Að lokum langar mig að monta mig á Maj Britt vinkonu minni. Skvísan er nýbúin að verja mastersritgerðina sína í lögfræði og gerði það með glæsibrag :) Ég er ekkert smá stolt af henni. Það er ekkert smá afrek að eignast tvær dætur og afgreiða svona ritgerð á sama tíma. Þegar ég fer í að skrifa mína pínkupons BS ritgerð í haust, þá hugsa ég til þín Maj Britt mín!!! :) Enn og aftur til hamingju með þetta allt saman!

ta ta..