29 janúar 2009

Góða helgi!

Jamm, það er semsagt löng helgi framundan hér :) Klaus er í fríi á morgun og við ætlum að hafa það extra huggulegt um helgina. Gæti orðið langt í að við erum bæði í fríi og að við getum gert eitthvað saman bara við tvö ;) Hann er víst með einhver plön fyrir morgundaginn sem ég veit ekkert um. Það er vonlaust að draga nokkuð upp úr honum þannig að ég bíð bara spennt eftir morgundeginum :) Á nú samt ekkert von á neinum lúxusheitum enda ekki fjárhagur á þessu heimili til þess..enda eru huggulegheit mikið betri en lúxus, ekki satt?!! ;)

Annars er þannig séð ekki mikið að frétta. Mallakútur hefur það fínt. Hann er sérstaklega næturhress og gerir allskonar fimleika æfingar þarna inni þegar ég reyni að sofa. Spurning hvort hann verði jafn hress á nóttunni þegar hann er kominn út?? ehemm...

Er búin að fara á nokkra fyrirlestra í skólanum og fá smá stressköst yfir því að ég útskrifist aldrei en svo róast ég jafn óðum og dett í kæruleysisgírinn aftur eins og Íslendingum einum er lagið.. þetta reddast allt saman! ;) Það voru nú margir hissa að sjá 'ástandið' á mér og það vill enginn trúa að ég sé komin 8.5 mánuð á leið. Finnst öllum kúlan svo lítil! Ljósan mín vil nú samt meina að samkvæmt legbotnsmælingum og þreifingum að þá verði þetta nú myndardrengur. Hann er greinilega vel bögglaður saman þarna inni litli pungsinn ;)

Hafið það gott um helgina! Ég er ekki bara spennt yfir langri helgi með honum Klaus mínum, heldur er Maj-Britt líka að fara að skíra lilluna sína sem fæddist á gamlársdag :) Hlakka mikið til að heyra nafnið á skvísunni. Svo er settur dagur hjá Sigrúnu vinkonu á sunnudaginn. Hann Egill hennar kom nú á settum degi á sínum tíma þannig að ég vona bara litla systir verði jafn stundvís :) Semsagt ýmislegt skemmtilegt að gerast um helgina! Ég hugsa til ykkar stelpur!

knús á línuna!
sd

11 janúar 2009

Jæja..Gleðilegt árið! ;)

Eitthvað lítið um blogg gleði þessa dagana ha? ;) En það er svosem ekkert svakalega mikið að frétta. Við héldum uppá áramótin heima hjá Mayru vinkonu minni, hennar manni og fleira vinafólki þeirra. Mayra er frá Brasilíu, með mikinn áhuga á thailenskum mat og borðar ekki rautt kjöt þannig að matseðillinn var mjög alþjóðlegur og óhefðbundinn. Að brasilískum sið tók borðhaldið fleiri fleiri klukkutíma :) Og frá svölunum þeirra var gott útsýni yfir borgina um miðnætti. Ég vil meina að Danir séu mun verri en Íslendingar þegar kemur að flugeldum, þeir sprengja mikið en virðast ekkert kunna að fara með þá. Sá til dæmis þó nokkur dæmi þar sem fólk skaut bara af svölunum hjá sér!! Best að halda sig innandyra á áramótunum hér! En kvöldið tókst bara mjög vel í alla staði.

Mallakútur þrífst bara vel og er orðinn 35 vikna í dag :) Rétt eftir jólin fannst mér ég allt í einu orðin voða þung á mér og eitthvað drusluleg og skrifaði þetta auðvitað strax á óléttuna. En eftir að við komum aftur til Köben og eftir nokkra daga í daglega hjóleríinu þá fattaði ég að þetta var nú bara eitthvað slen vegna ofáts og hreyfingarleysis!!! Er strax orðin mikið sprækari aftur og finnst eiginlega bara hálf bjánalegt að ég sé að fara í fæðingarorlof eftir tæpa viku! En hér býðst manni að hætta að vinna fjórum vikum fyrir settan dag án þess að það dragist frá orlofinu eftir fæðinguna þannig að ég ákvað að nýta mér það bara.. en gæti nú auðveldlega unnið lengur. Ekki það að ég láti mér leiðast af aðgerðarleysi. Þarf nú að byrja að undirbúa eitthvað hér heima og ég mæti nú á þá fyrirlestra sem eru í gangi í skólanum alveg eins og ég get fram að fæðingu. Það verður nú ýmsu komið í verk hér um næstu helgi. Pabbi hans Klaus kemur frá Jótlandi með vöggu og skiptiborð og um leið hjálpar hann okkur að setja upp fataskápinn sem við keyptum í síðustu viku. Eftir þá helgi er aðallega svona þvottastúss eftir, fara í gegnum föt sem við fáum lánuð og svo kaupa það smotterí sem vantar. Annars finnst mér ég hafa nógan tíma - er eitthvað svo viss um að ég gangi slatta fram yfir og dönsku ljósurnar eru sko ekkert að ýta á eftir þessu fyrr en við 42 vikur í fyrsta lagi! Þannig að ég á miklu frekar von á pungsa litla í lok febrúar en um miðjan mánuðinn.. þangað til eitthvað annað kemur í ljós ;)

knús á línuna ;)