22 desember 2006

Jæja, þetta er allt að smella..

jamms, kláraði prófin í gær.. prófið á mánudaginn gekk nú miklu betur en í gær en svona er þetta bara, vona bara það besta. Brunaði svo í bæinn og kláraði síðasta shopperíið, kom svo heim í gærkvöldi og skipti um rennilás á pilsi (með nýju saumavélinni!!), þreif aðeins og ég veit ekki hvað.. og fór svo snemma í bólið, alveg búin á því. Búnir að vera langir dagar í skólanum undanfarið.

Í dag er svo búið að hamast við að pakka og þrífa og svo skoða eina íbúð í millitíðinni. Það eru kostir og gallar við íbúðina eins og alltaf en við fáum smá tíma til að hugsa málið.. ekki eins og við höfum um mikið að velja.. kannski getum við prúttað aðeins með verðið ;)

Svo er það bara lestin til Jótlands eftir rúman klukkutíma, konfektgerð á morgun og svo bara jólin komin!! Ég verð að viðurkenna að þessi desember hefur algjörlega þotið fram hjá mér. Verð að vera skipulagðari næst svo maður missi ekki alveg af jólastemningunni.

En ég hlakka voðalega til að koma heim til Íslands!! Bara 6 dagar þangað til. Vííííí!!! :)

Hafið það yndislega gott um jólin elskurnar mínar, sé ykkur vonandi sem flest á meðan dvölinni stendur. Gamla gsm- númerið verður vonandi opið frá og með 29.des..

Jólakveðjur frá Köben!

sd

15 desember 2006

Þetta smá mjakast..

jamms, mín bara búin að skrifa og senda 25 jólakort! Eitthvað sem ég hef ekki gert í nokkur ár held ég barasta, og er ferlega ánægð með mig :) Svo er búið að kaupa allar jólagjafir nema eina (Klaus), pakka inn og sníkja flugfar fyrir þá heim til Íslands með vinum eða ættingjum. Haldiði að það sé flottheit?!! úff hvað mín er skipulögð!! ;)

Bara að próflesturinn væri í jafn góðum málum.. ehh..

sd

p.s. takk fyrir góð pepp eftir örvæntingarfullt blogg síðast :)

07 desember 2006

Hangikjet, laufabrauð, íbúðarleit og Kosta Ríka..

Jamms, hangikjetið og laufabrauðið er komið í hús :) Elsku pabbi og mamma geta náttúrulega ekki hugsað sér annað en ég fái eitthvað almennilegt að éta á jólunum og sendu mér þessar kræsingar. Foreldrar Klaus voru hér um helgina og þeim leist vel á þegar ég sagði þeim að ég kæmi með smá nesti með mér ;) Jólin hér eru sko ekki síðri átveisla heldur enn heima og því fjölbreyttara því betra!

Íbúðarleitin gengur ekki neitt!! Helv..ansk..djöf.. hvað þetta pirrar mig :( Íbúðamiðlanirnar sem eru á netinu eru meira og minna peningaplokk, bara tilbúnar auglýsingar og algjört plat. Den Blå Avis þarf maður næstum því að kaupa kl.4 á morgnanna því það er nánast búið að leigja allt út sem auglýst er fyrir kl.10. Svo er málið að fólk er að auglýsa íbúðirnar sínar svo seint af því að þær fara svo fljótt.. Ef ég væri ekki svona stressuð yfir þessu þá myndi ég ekkert byrja að leita fyrr en tveim vikum áður en ég þarf að vera flutt út.. pirr pirr!! En ég vil helst vera búin að finna eitthvað áður en ég kem heim til Íslands því við verðum voða lítið heima í janúar...

Jáháts, við vorum nefnilega að staðfesta ferð til Kosta Ríka í janúar að heimsækja La Minita kaffibúgarðinn!! Pælið í því!! Komum heim frá Íslandi 8.jan og förum út aftur 11. og verðum í 9 daga... þá er kominn 21.jan og daginn eftir fer Klaus til Amsterdam í 3-4 daga... þetta flokkast nú bara undir kæruleysi af verstu gerð!! Við verðum á fjandans götunni 1.feb! Ég hangi bara í "þetta reddast" gírnum ;)

Svo eru prófin að skella á eftir 10 daga og ég er drullustressuð.. allavega fyrir rekstrarhagfræðina :( Ég get ekki einu sinni líkt þessum kúrs saman við þann sem ég tók í THí.. skil sko ekkert hvað maðurinn er að tala um!! Ekkert nema einhver stærðfæði og graf-teikningar.."Fallinn með 4.9" sönglar í hausnum á mér.. og upptökuprófið er tveim dögum eftir að ég kem frá Kosta Ríka þannig að ekki hjálpar það heldur.. pirr pirr!

og jólagjafirnar.. er ekki einu sinni byrjuð að kaupa þær :( Reyndar kemur Sissa til mín á sunnudaginn í svokallaða "shop-until-you-drop" ferð.. þá ætla ég að nota tækifærið og bara afgreiða jólainnkaupin á þessum tveim dögum.. ó hvað ég hlakka til að fá hana Sissu mína í heimsókn!! :)

jæja.. best að hætta þessu væli og sökkva sér ofan í bækurnar en ég segi nú bara; hvar er kósí aðventan???

kiss kiss,
sd ..á barmi taugaáfalls ;)

27 nóvember 2006

jól í nóvember..

Það er ekki hægt að segja annað en að smá jólastemmning hafi verið í stofunni hjá okkur í liðinni viku. Klaus fékk sendingu frá Philips sem þakkarvott fyrir smá sýningu sem hann var með fyrir þá á Ítalíu um daginn. Þeir höfðu nefnt það við hann að hann mætti eiga von á smá glaðning.. en HALLÓ!!! Þeir sendu hraðsuðuketil, brauðrist, blender, safapressu sem tekur hálfan eldhúsbekkinn, kaffi uppáhellingarvél og "espressóvélina" þeirra sem Klaus skildi nú bara eftir á skrifstofunni.. ;) En þetta eru allt ekkert smá flott tæki, allt í stíl með burstað stál lúkk... það er auðvitað ekki séns að þetta komist allt inní eldhúsið okkar en flott er það!! ;) Við vorum viss um að uppáhellingar vélin væri algjört prump en hún virkar bara svona helvíti vel og er í miklu uppáhaldi hjá okkur þessa dagana..

En annars er svo langt síðan ég bloggaði síðast að ég veit ekki hvað er búið að gerast meira síðan síðast.... nóg að gera í skólanum eins og vanalega. Fékk bara ágætis einkunnir úr prófunum... fékk reyndar hærri einkunn í prófinu sem mér fannst ganga miklu verr... en bekkurinn er reyndar að fara úr límingunum yfir niðurstöðunum úr hinu prófinu, ótrúlegasta fólk féll eða rétt skreið. Fyrst varð ég fyrir smá vonbrigðum með mína einkunn en þegar ég heyrði heildarniðurstöður þá er ég nú bara sátt með að vera bara rétt yfir meðallagi í því faginu.... en það ætlar fullt af liði að senda inn formlegar kvartanir og vesen.. stressið í þessu unga fólki segi ég nú bara, það hefur enn tvö og hálft ár til að hækka meðaleinkunnina sína!!

Það var æðislega gaman að fá Vigdísi og co í bæinn.. við sprelluðum og borðuðum góðan mat saman og drukkum nokkra mojito að sjálfsögðu ;) Vigdís kom færandi hendi með tvo stóra kubba af íslenskum skólaosti og vænan skammt af kúlusúkki.. ummmm ;) Ég fékk reyndar smá heimþrá eftir að helginni lauk, maður saknar jú vina og ættingja oft og mikið... en þá er nú gott hvað stutt er í að ég komi landsins!! Ég hlakka svooooooo til!!

kiss kiss,
sd

17 nóvember 2006

Enn eitt afmælisbarnið ;)

Hún yndislega vinkona mín Maj-Britt á afmæli í dag!! Innilegar hamingjuóskir með daginn elskan mín.. vonandi ertu búin að hafa það gott í dag og góða skemmtun í kvöld, það verður örugglega æði á tónleikunum! Klaus biður að heilsa og ég sendi þér endalaus knús og kossa... miss jú!!

sd

16 nóvember 2006

Pabbi minn er 55 ára í dag!! :)

Til hamingju með daginn elsku besti pabbi!!

jamms.. það eiga margir afmæli í nóvember ;) annars er voða lítið að frétta.. mikið að gera í skólanum og ég hlakka til helgarinnar. Vigdís og co. nýkomnar í bæinn og ég ætla að hitta þær allar á morgun eftir skóla.. JEIII!! ;)

svo er búð að kaupa flugmiða heim í desember.. komum til landsins að kvöldi 28.des og fljúgum norður seinnipart næsta dag. Svo komum við suður aftur 4.jan og verðum fjóra daga í Reykjavíkinni.

Ó hvað ég hlakka til að koma heim!! :)

kiss kiss,
sd

14 nóvember 2006

Afmælisbarn dagsins!

Sigrún vinkona mín er þrítug í dag!! JEIII!! :) Velkomin á fertugsaldurinn kæra vinkona!!
kiss kiss,
sd

10 nóvember 2006

Takk fyrir mig! :)

jábbs, takk fyrir öll commentin, skilaboðin og hringingarnar. Það var æðislegt að heyra í svona mörgum á afmælisdaginn. Dagurinn var meiriháttar í alla staði þrátt fyrir lítil plön. Brunchinn á Europa klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og svo skemmtilega vildi til að við rákumst á ótrúlega marga sem við þekktum, bæði á leiðinni þangað og á staðnum. Ekki mjög algengt hér í Köben. Við hittum Jens, Troels og Søren Stiller og frú (kaffifólk allt saman), svo líka Þórey og Kristínu og meira að segja Kristbjörgu frá Kaffitári.. ;) Søren sendi okkur kampavín á borðið þanning að við 'neyddumst' til að byrja að sulla í svoleiðis hádeginu ;)

Næst fórum við á Estate Coffee til að fá okkur drekkanlegt kaffi ;) Þar voru Þórey og Kristín búnar að undirbúa óvæntan glaðning.. þær komu stökkvandi á móti mér syngjandi hástöfum afmælissönginn á íslensku og inni beið enn meira kampavín og fleira samstarfsfólk til að skála með okkur. Andlit kúnnanna og gangandi vegfaranda breyttust í óttablandin spurningamerki þegar þær hófu sönginn en mér fannst hann fallegur!! ;)

Við vorum ekki lengi að klára kampavínið og þá var komið að því að kaupa afmælisgjöfina mína frá Klaus. Hann var búinn að ákveða að vega mér úr en treysti sér ekki alveg að velja það sjálfur. Við vorum ótrúlega snögg að finna rétta úrið og ég er ekkert smá ánægð með það. Svo var Klaus búinn að panta borð á æðilegum veitingastað um kvöldið.. Kong Hans Kælder.
www.konghans.dk
Ég hef sjaldan fengið jafn góðan mat eða upplifað jafn góða þjónustu... :)

Daginn eftir kom svo risastór pakki til mín með póstinum.. og ekki finnst mér það leiðinlegt ;) Ma og Pa ásamt systkinum mínum, öfum, ömmum og frænkum og frændum sendu mér þessa rosa flottu saumavél í tilefni dagsins og VÁ! hvað ég er ánægð með hana!! Hún er æðisleg, þúsund þakkir fyrir mig!! :)

Seinnipartinn í gær átti ég svo stefnumót við Sigrúnu vinkonu og Egil Orra grallara.. Þau voru á leiðinni til Íslands frá Lundi og við eyddum seinnipartinum saman.. Sigrún verður einmitt þrítug líka eftir örfáa daga þannig við skáluðum enn meira ;) og hún má nú vera stolt af Agli sínum sem var svo duglegur að eyða deginum á veitinga- og kaffihúsum með okkur!! Í lok dagsins hitti hann svo Klaus í fyrsta skipti og hreinlega stökk á hann og faðmaði.. greyið var greinilega komið með nóg af þessu kvennatali og yfir sig ánægður að sjá einhvern karlkyns ;) Litlan rófan, hann var nú orðinn þreyttur þegar ég kvaddi mæðginin á lestarstöðinni..

En í dag er annar afmælisdagur.. Hörður afi minn á afmæli í dag :) Ég viðurkenni fúslega að ég man ekkert hvað hann er gamall enda er hann alltaf ungur í anda ;) til hamingju með daginn elsku afi minn!!

Góða helgi elskurnar mínar.. hérna megin er vinnuhelgi framundan..

sd

07 nóvember 2006

Ennþá 29 ára ;)

jábbs.. ég á ennþá örfáa klukkutíma eftir sem 29 ára yngismær ;) en ég er smám saman að sætta mig við þetta allt saman.. Klaus er búinn að lofa mér að hann muni elska mig áfram þrátt allt saman ;)

Síðasta helgi í Osló var ferlega fín.. hafði það huggó með Hanne og hitti líka nokkra fleiri úr norsaragenginu frá því í Barcelona. Svo kom elsku besti Klaus heim í dag frá S-Afríku.. ó hvað er gott að fá hann heim aftur ;)

Planið á morgun er einfalt.. sofa út, fara svo í brunch á Café Europa..besti brunchinn í Köben er þar, dýr en bestur ;) síðan ætlum við bara eitthvað að dingla okkur um bæinn og svo er Klaus búinn að panta borð einhvers staðar um kvöldið.. semsagt bara huggulegheit frá morgni til kvölds...

ta ta..

sd - forever young..

30 október 2006

Í fréttum er þetta helst..

Kláraði prófin á föstudaginn.. JEII! ;) Annað gekk nokkuð vel ;) en hitt ekki svo vel :( svoleiðis gerist þegar kennarinn stanglast stöðugt á því hvaða áherslur á að leggja í próflestri og svo stenst ekkert sem hann segir þegar að prófinu kemur! Pirr pirr! En í dag byrjaði svo nýr fjórðungur, tvö ný fög að komast í gang og mér líst bara vel á.. ;)

Klaus kom heim frá USA/Ítalíu á fimmtudaginn og er að fara til Suður Afríku á morgun.. búið að vera voðalega huggó að hafa hann heima nokkra daga. Honum leist samt ekkert á skapið í mér þegar hann kom heim og ég var á milljón í 'power-lestri' fyrir síðasta prófið.. he he.. það var víst eitthvað stuttur þráðurinn í stressinu ;)

Það var verið að hringja í okkur og segja upp leigusamningnum okkar :( ný íbúð óskast fyrir 1.feb takk!!

og svo er bara brostinn á skítakuldi.. pirr pirr!

sd

25 október 2006

..sit heima hjá mér og les fyrir próf í lok október - og inn um gluggann læðist ilmur af nýslegnu grasi.. ljúft ;)

22 október 2006

Jæja.. mér finnst nú eins og eitthvað sé farið að síast inn í hausinn á mér ;) Fyrra prófið er á þriðjudaginn og hitt á föstudaginn. Samt heill hellingur eftir að reyna að skilja enn.. andvarp !
Sé fram á fjárfestingar fljótlega í almennilegu skrifborði og stól í réttri hæð!! Breytist í kryppling með þessu áframhaldi :(

En til þess að létta lundina yfir þessu öllu saman þá keypti ég mér flugmiða til Osló, fyrstu helgina í nóvember :) Ætla að heimsækja Hanne vinkonu mína sem bjó á sama tíma og ég útí Barcelona. Það verður gaman að hitta hana aftur. Hafði alltof lítinn tíma fyrir hana þegar ég var á Nordic Cup í Osló í fyrra, þannig að nú getum við kjaftað hvor aðra í hel! ;)

Svo er ég held ég búin að afgreiða enn einn valkvíðann. Var mikið að velta mér uppúr hvað ég ætti að gera í tilefni þrítugsafmælisins... Sá það fyrir mér að ef ég skyldi halda veislu að þá þyrfti ég fyrst að koma mér almennilega fyrir í íbúðinni.. klára að taka uppúr kössunum og svoleiðis, þannig að það veislan er útúr myndinni!! ;)
En Vigdís vinkona er að leiðinni til Köben um miðjan nóvember ásamt fleiri skvísum frá Akureyri í tilefni þess að allar urðu þrítugar á árinu.. Jeii!! Þannig að ég er að hugsa um að skvetta aðeins úr klaufunum með þeim....

Hvort segir maður annars sletta eða skvetta úr klaufunum??? Ég prófaði að "googla" þetta og bæði virðist vera notað... ??

Anyways.. það er semsagt margt að hlakka til mín megin í heiminum... hvað með ykkur??

ta ta,
sd

16 október 2006

Upplestrar "frí"

Þá er fyrsta fjórðungi úr skólaárinu lokið og rúm vika í próf... nett stress í gangi. Fyrstu prófin í nýjum skóla eru alltaf erfiðust því maður veit ekkert hverju má eiga von á. Helgin nýttist illa til lesturs þar sem ég var að vinna á kaffihúsinu þannig að nú er bara að setja í 6. gírinn. Það kemur sér "vel" að Klaus er að fara í enn eina ferðina á morgun og verður í rúma viku. Þá er hann allavega ekkert að "trufla" mig. Ég sko voða erfitt með að einbeita mér ef hann er bara eitthvað að hafa það náðugt inní stofu fyrir framan imbann... þá vil ég líka! ;) Maður er ekki þroskaðri en þetta!! ;)

Svo er smá valkvíði í gangi. Er að reyna að ákveða hvað á að gera um jólin. Ég er ekki búin í skólanum fyrr en 21.des þannig að nú er allt farið að hallast í þá átt að við förum til Jótlands yfir jólin til foreldra Klaus og komum svo heim til Íslands yfir áramótin. Svo verð ég kannski eitthvað lengur fram í janúar þar sem ég er í 6 vikna jólafríi.. Þó svo að þetta hafi upphaflega verið mín hugmynd þá finnst mér pínu erfitt að sætta mig við hana.. svona er maður ferlega vanafastur ;)

En að lokum vil ég senda hamingjuóskir til Ólafar Erlu og fjölskyldu. Við Ólöf bjuggum saman í lítilli kjallaraholu í Hvassaleitinu veturinn '98-'99... úff hvað það er langt síðan.. en í gær fæddi hún sinn annað barn, lítinn tippaling ;) Innilega til hamingju aftur Ólöf, Valli og Emma!

best að sökkva sér í lesturinn..

sd

03 október 2006

Nordic Barista Cup 2006

hmmm.. maður er alltaf hálf blúsaður fyrstu dagana eftir að þessu móti lýkur. Það er alltaf svo ferlega gaman á meðan á því stendur...maður er umkringdur góðum vinum sem maður sér sjaldan, mikið hlegið og sprellað, drekkum gott kaffi og aðra góða drykki. Borðum góðan mat og endum helgina með ærlegu tjútti!!

Helv.. norsararnir unnu samt aftur! :( oj hvað ég var spæld.. ég hélt náttúrulega bæði með Danmörku og Íslandi.. en var samt alveg sama hver myndi vinna svo lengi sem það yrðu ekki norsararnir.. (andvarp) Í fyrra voru fyrstu verðlaun ferð fyrir liðið til Brasilíu og nú er það ferð til El Salvador... glatað þegar það er alltaf sama liðið sem fær að fara í þessar ferðir... jaháts.. ef það hefur eitthvað farið fram hjá ykkur þá er ég ferlega pirruð yfir þessu!!

En allavega.. lokakvöldið var glæsilegt 80's partý og outfittin voru hver öðru hallærislegri!! Landsliðin þurftu að skemmta gestunum með því að flytja Eurovisionlög frá þessum tíma.. Ísland sló auðvitað í gegn með Gleðibankanum.

Ég tók auðvitað fullt af myndum en eins og þið við, þá er ég skelfilega lengi að koma öllu svoleiðis á netið. Þessi heimasíða verður að duga í bili:

www.nordicbaristacup.com
(þarf bara að skrolla aðeins niður)

því miður engar myndir frá lokakvöldinu en fullt af myndum frá mótinu sjálfu sem Ken og Sarah frá Barista Magazine sáu um að dæla inná síðuna jafnóðum..

En raunveruleikinn er hafinn á ný.. verkefnavinna í fullum gangi í skólanum, regnblautt haustið mætt á svæðið og styttist í prófin... dísess kræst hvað tíminn er fljótur að líða. Kemur mér alltaf jafn mikið á óvart ;)

kiss kiss,
sd

21 september 2006

Oj bara..

Búin að liggja í rúminu síðan seinnipartinn í gær. Hausinn stútfullur af kvefi og með hósta á við stórreykinga mannaeskju :( Röddin er nú samt komin aftur en í gærkvöldi heyrðist bara eitthvað píp hljóð ef ég reyndi að tala.. Klaus til mikillar skemmtunar ;)
Vona að ég komist í skólann á morgun. Erum nefnilega akkúrat að vinna hópverkefni núna sem á að skila á mánudaginn. Þar að auki er ég með tvær vaktir að kaffihúsinu um helgina... ehemm.. ekki sú vinsælasta í þessari hópavinnu er ég hrædd um...

En næsta vika.. og aðallega helgin verður sko skemmtileg fyrir kaffinörda í Köben. Þá fer fram hið æsispennandi mót The Nordic Barista Cup!! Jeii! Þetta mót hefur áður verið haldið á Íslandi og í Noregi í fyrra og var alveg meiriháttar. Það eru fjórir í liði frá hverju landi og kaffibarþjónarnir vita ekkert hvað þau eiga gera fyrr en þau mæta á staðinn. Þetta mót snýst meira um að hafa gaman og hitta gott fólk og læra eitthvað nýtt heldur en að vinna.. Og aðallega bara enn ein ástæða fyrir þetta ferðasjúka kaffifólk að hittast og vera saman. Hin tvö árin var ég í íslenska liðinu.. núna er ég aðallega klappstýra fyrir bæði Ísland og Danmörku ( Klaus er í danska liðinu) og svo náði ég að díla mig frítt inn sem ljósmyndari.. hehe.. þetta er nefnilega ekkert ókeypis sko..! Útlendingarnir fara að tínast í bæinn á mán-þri og mið ( og maður þarf nú eitthvað að sósíalæsa með þeim).. svo byrjar þetta á fimmtudaginn og endar með dinner á NOMA ( ekkert slor) og 80's partýi á laugardaginn. Vona bara allt bragð og lyktarskyn verði komið í lag aftur.. ;)

jæja.. besta að reyna sinna þessu hópverkefni aðeins.. Allar óskir eða komment um betri líðan, vorkunn eða almennan söknuð eru vel þegnar hér á kommentasíðunni!!

sniff sniff,
sd

17 september 2006

Sumar í september..

Fyrir utan að Klaus kom heim frá Nicaragua síðasta mánudag þá er mest lítið að frétta. Það var voðalega gott að fá hann heim og ferðin tókst mjög vel hjá honum. Til að byrja með var hann á kaffiráðstefnu í Managua þar sem hann hélt fyrirlestur og var með kaffibarþjónaþjálfun. Síðan heimsótti hann tvo kaffibúgarða. Og hann verður barasta heima í rúman mánuð áður en næsta ferðatörn byrjar! ;)
Það er nóg að gera í skólanum.. Við erum ca. 60 í bekknum.. flestir voru komnir í nett panikk í síðustu viku, yfir því að svona yrðu bara næstu þrjú árin hjá okkur; ekkert líf bara lestur! Hópverkefnin eru komin í gang núna líka.. ég er enn nokkuð róleg.. held að aldurinn vinni með mér núna því ég hef ekki alla þessa þörf fyrir að djamma og mæta í allt félagsprógrammið eins og þessar litlu elskur sem eru með mér í bekk ;) By the way.. ég er elst í bekknum!!! Það er reyndar smá möguleiki á að einn Bretinn sé jafngamall mér.. (andvarp!)

og svo að maður ræði nú aðeins veðrið.. sumarið er búið að vera með ágætis come back síðustu vikuna. Barasta bongóblíða og allt að 25 gráður suma dagana.. maður veit varla hvernig maður á að haga sér í svona stöðu..

en allavega.. lesturinn bíður,

sd

07 september 2006

Heil og sæl..

Nú er ég búin að vera í viku í nýja skólanum og líst bara nokkuð vel á þetta. Önninni er skipt í tvær 7 vikna annir þannig að við erum bara í 2 fögum í einu og tökum svo próf í þeim í lok október. Næsta önn tekur svo strax við og próf aftur í desember. Ég held að þetta eigi bara mjög vel við mig þar sem allt lesefnið er á svolítið torskildri (að mínu mati) viðskiptaensku og því ágætt að geta bara einbeitt sér vel að tveimur fögum í einu. En þýðir víst ekkert að slaka á.. Lesefnið hellist yfir mann á hverjum degi og suma kennarana hef ég varla séð brosa ennþá :/ En skólinn er voða flottur.. ehhh.. sérstaklega ef miðað er við Höfðabakkann, þá ágætis skólastofnun. Ég kunni nú samt voða vel við mig þar..

Það markverðasta samt sem hefur gerst síðan síðast er hinsvegar stefnumót mitt við Sigrúnu og Maj-Britt síðastliðinn mánudag. ohh.. það var yndilegt ;) Mæbba var að millilenda í Köben yfir daginn þannig að Sigrún ákvað að skella sér líka yfir sundið frá Lundi. Við skelltum okkur í lunch á dýrasta kaffihúsi Kaupmannahafnar :/ Café Europa.. borðuðum góðan mat, drukkum hvítvín og slúðruðum af kappi hver ofan í aðra ;) Svo var rölt um nálægar götu en aðallega á milli annarra kaffihúsa til að fá sér meira hvítvín.. he he ;) Voða gott að fá vinkonurnar í heimsókn og er barasta endurnærð, nauðsynlegt að eiga svona stelpudag stundum.. sérstaklega þegar allar vinkonur manns búa í öðru landi!!

Annars er Klaus búinn að vera í Nicaragua í tæpa viku núna.. kemur heim á mánudaginn. Hundleiðinlegt að vera svona ein heima.. og hann er ekki einu sinni í gsm-sambandi þannig að engin sms heldur.. :( Mér datt í hug að nota tækifærið og kaupa eitthvað af nýjum húsgögnum á meðan.. hann er nefnilega svo pikkí stundum að það tekur margar vikur að ákveða hvað á að kaupa!!! EN best ég bíði með það... ;)

jæja.. nú er ég hætt í bili.

sd

29 ágúst 2006

YESSSSS! :)

Taskan mín er loksins komin í hús og myndavélin og linsurnar eru í fullkomnu lagi! Þvílíkur léttir!! Reyndar voru sum fötin mín blaut.. en það er nú ekkert mál. Ég var sko farin að ímynda mér allt það versta og orðin viss um að ég sæi dótið mitt aldrei aftur. JEIII!! ég er alveg í skýjunum núna og hef aldrei verið jafn snögg að ganga frá úr töskunni ;) venjulega tekur það mig nokkra daga..

En fyrsti skóladagurinn var í dag. Mér líst bara nokkuð vel á þetta og kennaranum tókst að gera viðfangsefnið - the company and its historical settings- bara nokkuð áhugavert ;) Ég er ennþá að berjast við HR um að senda mér fullnægjandi pappíra yfir námið mitt þar svo ég geti sótt um að fá einingarnar metnar. Það ætlar að reynast þeim erfitt að lýsa almennilega kúrsunum sem eru kenndir hjá þeim... vonum það besta. Það er hinsvegar nóg lesefni framundan og margt misskemmtilegt eins og gengur og gerist.

Maj-Britt og Einar kærastinn hennar eru í stuttu stoppi hér í Köben. Við Klaus ætlum út að borða með þeim annað kvöld á Spiseloppen í Kristjaníu. Úff hvað ég hlakka til að knúsa hana Mæbbu mína!! .. og hitta kærastann auðvitað ;)

þangað til næst,
kiss kiss..
sd
YESSSSS! :)

Taskan mín er loksins komin í hús og myndavélin og linsurnar eru í fullkomnu lagi! Þvílíkur léttir!! Reyndar voru sum fötin mín blaut.. en það er nú ekkert mál. Ég var sko farin að ímynda mér allt það versta og orðin viss um að ég sæi dótið mitt aldrei aftur. JEIII!! ég er alveg í skýjunum núna og hef aldrei verið jafn snögg að ganga frá úr töskunni ;) venjulega tekur það mig nokkra daga..

En fyrsti skóladagurinn var í dag. Mér líst bara nokkuð vel á þetta og kennaranum tókst að gera viðfangsefnið - the company and its historical settings- bara nokkuð áhugavert ;) Ég er ennþá að berjast við HR um að senda mér fullnægjandi pappíra yfir námið mitt þar svo ég geti sótt um að fá einingarnar metnar. Það ætlar að reynast þeim erfitt að lýsa almennilega kúrsunum sem eru kenndir hjá þeim... vonum það besta. Það er hinsvegar nóg lesefni framundan og margt misskemmtilegt eins og gengur og gerist.

Maj-Britt og Einar kærastinn hennar eru í stuttu stoppi hér í Köben. Við Klaus ætlum út að borða með þeim annað kvöld á Spiseloppen í Kristjaníu. Úff hvað ég hlakka til að knúsa hana Mæbbu mína!! .. og hitta kærastann auðvitað ;)

þangað til næst,
kiss kiss..
sd

23 ágúst 2006

Komin heim frá Brasilíu.

jábbs.. við komum heim í gær. Það gekk sko ýmislegt á í þessari ferð. Í fyrsta lagi var fluginu okkar út aflýst 2 daga í röð vegna stöppunnar sem mundaðist á Heathrow eftir hertar öryggisaðgerðir. Þegar við vorum loksins komin á völlinn þá var svo mikil seinkun á fluginu að engu munaði að við myndum missa af tengifluginu í London. Við hlupum hreinlega á milli véla á Heathrow.. sem gerði það að verkum að farangurinn komst ekki með í vélina til Sao Paulo. Klaus fékk sýna tösku eftir 3 daga og ég hef ekki enn fengið mína!! :( British Airways er svo sannarlega með allt niðrum sig þessa dagana. Þeir hafa varla svarað símum né föxum og loksins þegar maður nær í þá svara þeir bara eitthvað útí loftið til þess að losna við mann. Núna segja þeir mér að taskan sé pottþétt í London og að það sé búið að senda meldingar um að nú eigi að senda hana tilbaka til Danmerkur en ekki til Brasilíu. Það eru hinsvegar um 20.000!! töskur sem bíða það eftir að verða sendar til eigenda sinna og því geta þeir ekkert sagt til um hvenær ég fæ töskuna. Versta er að nýja fína myndavélin mín er í töskunni því ég varð að tékka ALLT inn. Venjulega hef ég hana allt í handfarangri.. en í þetta skiptið mátti maður bara vera með veski og vegabréf í glærum plastpoka. Ég er búin að vera á algjörum bömmer yfir þessu og þetta hafði auðvitað töluverð áhrif á ferðina. Oft þurftum við að eyða frítíma okkar í að hlaupa á milli búða og finna þetta nauðsynlegasta; nærföt og eitthvað til skiptanna, tannbursta og smá snyrtidót. Það var sko ekki planið að vera á einhverju búðarápi enda ekki mikið varið í þær þarna.

EN að ferðinni sjálfri.. Það var ofsalega vel hugsað um okkur af eigendum Daterra kaffibúgarðsins. Fyrsti dagurinn fór nú bara í smá afslöppun eftir flugið, búðarráp og rúnt um borgina með Isabelu sem sá mest um okkur þarna. Svo fórum við á hádegisverðarfund með ýmsum fjölmiðlum þar sem Klaus talaði kaffið þeirra og brasilískt kaffi yfirhöfuð. Næsta dag vorum við með þjálfun fyrir ca. 20 kaffibarþjóna úr Sao Paulo. Þetta tókst allt saman mjög vel og var rosalega vel skipulagt. Við vorum öllu viðbúin eftir skipulagsleysið í Ástralíu en þetta var allt alveg meiriháttar.
Planið var síðan að fara á Daterra búgarðinn en fyrst að ferðin styttist um þessa 2 daga þá gafst ekki tími til þess. Daterra fólkið vildi frekar senda okkur í frí til Ríó og fá okkur aftur seinna á búgarðinn þegar betri tími gefst. Vona svo sannarlega að eitthvað verði úr því.

Rio de Janeiro er hrikalega falleg borg ef maður er staddur í réttum hverfunum. Út um hótelgluggann okkar var útsýnið ekki af verri endanum. Kristur úr einni átti og strandlengjan úr annarri. Það var reyndar ekkert strandaveður á meðan við vorum þarna en við tókum nú samt smá göngutúr á ströndinni, drukkum slatta af caphirinja og nutum okkar ;)
Við höfðum hitt annan kaffibónda á fjölmiðlafundinum sem átti búgarð rétt fyrir utan Rio og hann bauð okkur í heimsókn. Við eyddum því einum deginum með honum og konunni hans. Búgarðurinn er uppí fjöllunum skammt frá Rio og það var algjört æði að koma þangað. Það var enn uppskera í gangi þannig að loksins sá maður í alvöru hvernig þetta fer allt fram. Það er ofsalega fallegt þarna upp í fjöllunum og allt önnur stemning en í Rio og Sao Paulo.. næstum eins og að koma í allt annað land. Paulo (eigandinn) ætlar að senda okkur myndir sem við tókum á vélina hans.. ég var náttúrulega myndavélalaus allan tímann!! Isabela ætlar líka að senda okkur myndir frá Sao Paulo en því miður eigum við engar myndir frá Rio de Janeiro. Sem gerir okkur bara enn ákveðnari að fara þangað aftur og hafa meiri tíma og fleiri föt til skiptanna ;)

Við sáum hina hliðina á Rio á leiðinni inn og út úr borginni. Þarna er ótrúlega mikið af fátækrahverfum og fólkið býr í þvílíkum hreysum sem eru byggð hvert ofan á annað. Það var ömurlegt að sjá þetta. Maður getur ekki ímyndað sér hvernig hægt er að búa svona. Við fengum mjög ströng fyrirmæli frá gestgjöfum okkar um það hvar við máttum þvælast um og hvar ekki... og í fínni hverfunum eru öll hús afgirt með a.m.k. 2ja metra háum girðingum sem gerir borgina ekki beint mjög vinalega en samt nógu heillandi til að vilja heimseækja hana aftur..

En það er gott að vera komin heim aftur... það er komið nóg af ferðalögum hjá mér í bili enda byrjar skólinn á mánudaginn. Klaus fer til Nicaragua í byrjun september, svo kannski til USA í október og jafnvel til Suður-Afríku í nóvember þannig að það er nóg að gera hjá honum. Mér finnst mjög freistandi að fara aftur með honum í janúar, þá fer hann líklega til Costa Rica. Kemur allt í ljós..

Vonandi fæ ég nú einhver komment frá ykkur í þetta skiptið. Finn svolítið fyrir heimþrá þessa dagana... kannski bara af því ég er á svo miklum bömmer út af ferðatöskunni minni. En síðasta ferð til Íslands var auðvitað fáránlega stutt.. svo fór ég að hugsa um næsta afmælið mitt (sem er stórt!) en það verður auðvitað ekkert gaman að halda uppá það hér þegar ekkert af fólkinu manns er á svæðinu :( Kannski tekur maður bara Klaus með sér í einhverja borgarferð.. ókaffitengda!! ;)

Hafið það gott elskurnar mínar hvar sem þið eruð..

kiss kiss,
sd

10 ágúst 2006

Langt blogg..

Úff, það nú orðið langt síðan ég bloggaði síðast.. veit varla hvar ég á að byrja..
Ástralíuferðin var auðvitað mjög skemmtileg. Ferðalagið var fulllangt samt. Fyrst rúmlega klukkutíma flug til London, hangs á vellinum þar, svo 12 tímar til Hong Kong, stutt stopp þar og svo 8 tímar til Melbourne. Og kannski er maður aumingi en ég var nokkra daga að ná mér.. :( Klaus veiktist fyrstu nóttina og eyddi því fyrstu dögunum í Melbourne inná hótelherbergi. Ég reyndi nú eitthvað að hjúkra honum og skrapp svo út í göngutúra um miðbæinn þess á milli.

Melbourne er æðisleg borg og við hefðum alveg verið til í að vera lengur þar. Þriðja daginn komst Klaus loks úr rúminu, bryðjandi pensilín og verkjalyf, og Justin vinur okkar fór með okkur á rúntinn á nokkur kaffihús og þvældist með okkur þangað til við áttum flug til Sydney.

Sydneybúar er mjög stoltir af brúnni sinni og óperuhúsinu sínu... sem er hannað af Dana!! ;) Sydney er miklu meiri stórborg.. samt er mjög kósí stemmning við hafnirnar allar.Ástæða ferðarinnar var fyrst og fremst að Klaus var boðið að koma og taka þátt í stórri kaffiráðstefnu í Sydney.. Nokkrum kaffimeisturum var boðið og þeir beðnir um að sýna einhverja meistaratakta. Skipulagið á því öllu saman var samt ekkert til að hrópa húrra fyrir en við ákváðum að segja sem minnst og taka öllu með opnum huga ;) Ástralir eru nefnilega miklu meira "ligeglad" en Danir nokkurn tímann og greinilega bara aukaatriði hjá þeim að hafa espressóvélaranr hreinar eða rétt stilltar eða hitastigið á vatninu einhvers staðar nálægt því sem eðlilegt er.. ;) En allavega.. flestir dagarnir í Ástralíu voru í góðum félagsskap allskonar kaffinörda sem við hittum aldrei nema þegar kaffibarþjónakeppnir eiga sér stað hér og þar um heiminn, eins ogt.d. George Sabados; guðfaðir mjólkurlistarinnar.. Mr.Skippy aka Justin Metcalf.. Gautam; indverski meistarinn, Sunalini; inverskur kaffiráðgjafi sem hefur mestu útgeislun sem ég hef nokkurn tímann kynnst.. það er eins og eitthvað Guðlegt gerist þegar hún birtist...Gleb, Irene og Anna; Rússarnir, Jack, Scott og David;ástralskir kaffibarþjónar sem hugsuðu voða vel um okkur.. og Robert Forsyth; "skipuleggjandinn".. góður karl en án skipulagningargensins.. ;) Við fórum semsagt á fullt af kaffihúsum, fórum oft út að borða, fengum góðan mat og góð vín ;)

Sjávarréttahlaðborð í góðum félagsskap; Sunalini og George fremst, Jack annar til vinstri, Gautam aftast til hægri.. hann sést varla ;)

Það er synd hvað við gátum lítið ferðast um landið bæði vegna tíma- og peningaskorts. Ástralía er náttúrulega fáránlega stór og alls ekki ódýr. En við komumst þó aðeins útí sveit einn daginn. Robert keyrði okkur og Gautam og Rússana uppí vínræktunarhéraðið Hunter Valley. Þar smökkuðum við bæði vín, bjóra og osta.. ummm og sáum fullt af kengúrum. Jeii!! ;)

Við Klaus fórum líka með ferju einn daginn yfir á Manly Beach sem er ein af mörgum ströndum í úthverfi Sydney. Vorum mjög heppin með veður þann daginn en ekki alveg nógu hlýtt til að leggjast í sólbað. En útsýnið yfir Sydney var æðilegt úr ferjunni.
Við fórum degi fyrr en planað var aftur til Melbourne. Vildum skoða okkur aðeins betur um þar. Kannski er það evrópska yfirbragðið á borginni sem heillaði okkur svona en við vorum allavega að fíla hana miklu betur en Sydney.. en kaffið er gott í báðum borgunum ;)

Ferðalagið heim gekk vel og flugþreytan miklu minni þegar hingað var komið. Æ hvað það var gott að komast í rúmið sitt og í hlýja danska sumarið. Klaus er búinn að vera á kafi í vinnu síðan hann kom heim og ég hef verið að taka nokkrar vaktir á kaffihúsinu. Svo keypti ég mér nýtt hjól!!! JEIII! Fyrir utan allt skröltið í gamla garminum þá var handbremsan farin og fótbremsan léleg þannig að mín fékk góðan díl í hjólabúðinni við hliðina á kaffihúsinu; Undurfallegt svart Taarnby Figaro, 7 gíra, með bastkörfu og tvöföldum lás.. það er yndislegt að hjóla á því og nú svíf ég um götur Kaupmannahafnar án nokkurra aukahljóða :)

Skólinn byrjar 28.ágúst. Í næstu viku verður reyndar einhver kynningarvika sem ég missi af vegna Brasiíuferðarinnar. Það held ég að sé nú í lagi. Þeir eru nú eitthvað tregir við að meta einingarnar mínar úr THí uppí námið hér.. eitthvað mikilmennskuæði í gangi held ég bara. Er allavega ekki búin að missa alla von. Hafði sambandi við skólann heima og spurði hvort námið hjá þeim væri í alvöru einskis virði í hákólum á hinum Norðurlöndunum.. Deildarstjórinn er því kominn í málið og farinn að útbúa almennilegar lýsingar á kúrsunum og matsaðferðum. Vona bara það besta :)

Og svo er það Brasilía á laugardaginn ;) Lét bólusetja mig gegn þremur mismunandi sjúkdómum í gæt og borgaði morðfjár fyrir... þá er bara að vona hasarinn í London róist aðeins því við millilendum þar... En spáin en góð; 30 stig og sól og blíða.

Læt þetta duga í bili. Ég er ekki enn búin að setja upp ný myndaalbúm frá Ástralíu.. þetta er svo mikið af myndum að ég hef ekki haft tíma í þetta.. svo eru þetta líka allt bara myndir af kaffihúsum og kaffifólki, veit ekki alveg hvað er gaman af því fyrir flest ykkar.. ;)

Þangað til næst, hafið það sem allra best elskurnar mínar!

kiss kiss,
sd

28 júlí 2006

Eg komst inn i haskolann!!! Copenhagen Business School :)

kvedjur fra Astraliu... saum kengurur i gaer i sveitinni :) bordudum svo eina i kvoldmat, smakkadist mjog vel ;)

-sd

23 júlí 2006

Astralia..

Erum i Sydney nuna.. vorum 3 daga i Melbourne sem er aedisleg borg. Meiri storborgarfilingur her. Allt gengur vel fyrir utan veikindi hja Klaus fyrstu dagana. Flugthreytan er hrikaleg samt og virdist ekkert minnka. Eg virdist bara ekki getad nad meira en 4 tima svefn a nottunni herna megin a hnettinum.

Klaus a afmaeli i dag og Unnur amma min lika.. :) Til hamingju med daginn!!

Kiss kiss,
sd

16 júlí 2006

Langt síðan síðast..

Ekki það að lítið sé að gerast.. þvert á móti. Siðast þegar ég bloggaði vorum við á leiðinni á Hróarskelduhátíðina. Við skemmtum okkur konunglega. Sem betur fer voru starfsmanna tjaldstæðin hrein og fín, hljóðlát og með alvöru klósettum í stað kamra og meira að segja með volgum sturtum! Er ekki viss um að ég hefði lagt í að vera í 4 daga á almennings tjaldstæðunum.. kalliði mig bara pjattrófu! ;) Og sólin steikti hátíðargesti alla helgina og ég verða að segja að öll umgjörð og skipulag hátíðarinnar var til fyrirmyndar. Það var brjálað að gera hjá okkur á kaffihúsinu. Maður reyndi nú að rölta samt á milli tónleika þegar maður átti frí. SigurRósar tónleikarnir standa uppúr, þeir voru geggjaðir!! Held meira að segja að sumum hafi brugðið svolítið, áttu alls ekki vona á svona flottu sjóvi. Guns'n'Roses spiluðu á sama tíma.. ég fór sko frekar á SigurRós enda fengu G&R ekkert sérstaka dóma. Sá líka smá hluta af Frans Ferdinand.. þeir voru flottir, þekki þá reyndar voða lítið. Svo sá ég eitthverja fleiri sem ég man ekkert hvað heita.. ;) Er ekki alveg nógu mikið inní þessum tónlistarbransa..

Svo komu pabbi og mamma í heimsókn ;) Það var mjög gaman að fá þau í bæinn. Þau voru hrikalega heppin með veður, sól og blíða allan tímann. Ég gerði mitt besta í að túristast aðeins með þeim. Fórum í bátsferð um kanalana og skoðuðum merka staði. Svo komu þau tvisvar í dinner hingað uppá Tornskadestien og horfðu á boltann í leiðinni. Maturinn tókst nokkuð vel en boltinn ekki eins vel.. héldum öll með Frakklandi :(

Svo er ég farin að taka nokkrar vaktir á kaffihúsinu, gengur nokkuð vel á meðan kúnnarnir eru ekkert að spyrja of mikið um drykkina og vörurnar.. þá byrjar mín að stama ;) Þórey, sem vann með mér á Kaffitár er líka komin í fulla vinnu á kaffihúsinu. Við vorum að vinna saman um daginn og þeir Íslendingar sem komu þann daginn voru nú soldið hissa þegar þeim var barasta svarað á íslensku ;)

Leggjum af stað til Ástralíu eldsnemma í fyrramálið. Þeir sem eru að "skipuleggja" ferðina fyrir okkur er nú samt ekki alveg að standa við allt sem þeir sögðu í upphafi. En við ætlum að taka þessu öllu með opnum huga.. Er búin að liggja í sólinni alla helgina fyrst ég er á leiðinni í Ástralskan vetur: 10 stiga hita og skúraveður!! Kannski líka hægt að tala bara um íslaenskt sumar ;) Vona að danska sumarið verði ekki búið þegar við komum tilbaka.

Ég fæ svar frá háskólanum á meðan ég er úti. Það pirrar mig soldið að þurfa að bíða í 3-4 daga með að vita hvort ég komist inn. Pósturinn minn fer allur til bróður hans Klaus. Það hvarlar að mér að fá Mie til að opna bréfin og senda mér skilaboð um hvort ég sé inni eða ekki. En ef ég fæ ekki inn þá veit ég að það á eftir að skemma svolítið fyrir mér síðustu daga ferðarinnar, þannig að ég veit ekki alveg hvað ég á að gera... maður verður bara að krossa fingurna!!

Jæja.. nú er ég hætt í bili.

Hafið það gott elskurnar mínar.. ég er farin til Ástralíu!!

sd

28 júní 2006

Yndislegt að komast aðeins til Íslands.. ;)

Er nýkomin úr stuttri ferð til Íslands. Það var ofsalega gott að komast aðeins heim og ég náði að hitta alveg ótrúlega marga á met tíma.

Hef reyndar ekki tíma fyrir að skrá ferðasöguna núna þar sem ég er að græja mig fyrir Roskilde hátíðina.. en vil samt setja inn 2-3 myndir...

Þetta gullfallega par gifti sig til dæmis í garðinum sínum á Ránargötunni í Reykjavík. Ég hef nú komið í nokkur brúðkaupin en elsku Sissa og Leifur mega eiga það, að þetta var eitt það fallegasta og skemmtilegasta og auðvitað pínu gaga, sem ég hef komið í! ;)


Nú keyra þau um frönsku rívíeruna í 2ja sæta-blæju-Mercedes Bens... ;)

Svo brunaði ég norður með Vigdísi.. Fjölskyldan grillaði í bústaðnum í norðlenskri blíðu. Okkar bústaður er svona alvöru.. hvorki með rafmagn né heitt vatn.. Pabbi stóð í tilraunastarfsemi; hitaði vatn með gömlum kolakatli og fyllti þetta fínasta salt kar af tæplega 40 gráðu heitu vatni!


Ungir sem aldnir voru ánægðir með afraksturinn! ;)Þessar skvísur voru í miklu stuði! Jakobína og Katrín Björk kunnu vel að meta uppátæki frænda síns.. Þessar píur eiga eftir að verða sannar drottningar! ;)Ég set inn fleiri myndir seinna... Roskilde er næst á dagskrá. Það er spáð sól og blíðu en ég keypti samt gúmmístíbba og verð öllu viðbúin...

kiss kiss,
sd

14 júní 2006

Sól og sumar..

það vantar ekki hitann og svitann hér í Köben þessa dagana. Eins og sannur Íslendingur rembist ég og rembist við að láta sólina sleikja mig þrátt fyrir að líða hálf ömurlega í þessari steik. Og fyrir hvað?? Ég er víst þannig gerð að ég tek lítinn sem engann lit og verð aðallega bleik og freknótt... andvarp! Af einhverjum undarlegum ásæðum verða allir í minni fjölskyldu kaffibrúnir við minnstu sólarglætu... en ég verð aldrei neitt meira en mildur latte :(

Ástralía..

Ferðaplanið er allt að smella saman. Þetta verður jafnvel 2ja vikna ferð enda varla hægt að fljúga svona langt án þess að stoppa aðeins. Auk kaffi ráðstefnunnar í Sydney förum við jafnvel til Melbourne og í stutta ferð að skoða vín-og kaffiræktunarhéröð.

Brasilía..

Jahátss!! Við erum sko á leiðinni til Brasilíu líka!! Daterra kaffibúgarðurinn býður okkur í tilefni að Klaus notaði kaffið þeirra í blönduna sína á heimsmeistaramótinu. Og í þetta skiptið er mér formlega boðið með og allur minn kostnaður greiddur líka. 10 dagar í ágúst. Byrjum í Sao Paulo og verðum með kaffibarþjóna þjálfun í einn dag. Næsta dag verður svo einhver 'media lunch' þar sem Klaus talar um Daterra kaffið. Svo förum við í 2-3 daga á Daterra búgarðinn sem er norður af Sao Paulo skilst mér. Síðustu dagana verðum við svo í Rio de Janeiro ;)

Hljómar of gott til að vera satt!

09 júní 2006

Margt að hlakka til.. ;)

Já það er ýmislegt skemmtilegt á döfinni næstu vikurnar..

- Í kvöld förum við Klaus út að borða á geggjaðan veitingastað sem heitir 1.th... já hann heitir fyrsta hæð til hægri! Staðurinn er innréttaður í gömlu íbúðarhúsnæði og upplifunin á að vera eins og að mæta í matarboð hjá kokkunum. Maður pantar og borgar fyrirfram, mætir á staðinn og fær engu ráðið um matseðilinn. Fyrst er fordrykkur í stofunni svo er farið einn í eldhús og kokkarnir eru bókstaflega við hliðina á manni að elda. Svo er boðið upp á 6-8 rétta matseðil og vínin eru sérvalin fyrir hvern rétt! Þetta verður æðislegt. Anita yfirkokkurinn gaf okkur gjafabréf í tilefni af velgengi Klaus í Bern en hún var hjálpaði Klaus heilmikið fyrir danska mótið við að hanna frjálsa drykkinn hans og kom svo með okkur til Bern. úff úff hvað ég hlakka til og verð að passa mig að vera VEL svöng ;)

- Næsta vika; veðurkortin sýna heiðskýra sól alla næstu viku og 23-27 stiga hita!! já, það er stundum er gott að vera hálf atvinnulaus.. he he..

- 21. til 27. júní verð ég á ástkæra ylhýra Íslandi!! Sissa og Leifur eru að fara að gifta sig og það verður rosa veisla í garðinum og mér skilst að tvö nágrannahús hafi lánað garðana sína líka!! Aðalpartýið verður semsagt á Ránargötunni þá helgi!! Eldsnemma morguninn eftir bruna ég svo til Akureyrar að hitta familíuna á ættarmóti inní Eyjafjarðarsveit! Það er eins gott að pabbi grilli eitthvað ofaní mann þá!! ;)

- 29. júní - 2.júlí verð ég að vinna sem kaffibarþjónn á Hróarskelduhátíðinni! ;) Estate Coffee var beðið um að koma í samstarf við Max Havelaar sem ætlar að reka kaffihús á hátíðinni og bjóða aðeins uppá FAIR TRADE vörur. Og díllinn er góður.. við kaffibarþjónarnir erum bara að vinna 24 tíma alls yfir alla helgina og getum því notið tónleikanna restina af helginni. Og við þurfum ekki að standa í afgreiðslunni heldur á kaffihúsinu, verðum bara í því að framleiða kaffidrykki, sem er ekki verra. Ég hef heyrt ýmsar sögur frá Hróarskeldu þannig að þetta verður spennandi.. ég á regngalla.. vantar því bara gúmmístígvél, svefnpoka og tjald!!

-4. til 11. júlí koma pabbi og mamma í heimsókn til Kaupmannahafnar. Það verður gaman að fá þau og maður er þegar farin að sigta út staði sem líklegt er að þau myndu vilja kíkja á.. ;)

-ÁSTRALÍA.. dagsetningar eru ekki alveg komnar á hreint en farið verður seinnipartinn í júlí ;) það var farið að líta út fyrir að ég kæmist ekki með því það er svo hrikalega dýrt að fljúga þangað. Þá ákvað minn heittelskaði að bjóða upp á vöruskipti, þ.e.a.s. að ég fengi Ástralíuferð í afmælisgjöf í staðinn fyrir Berlínarferðina sem hann gaf mér síðastliðinn nóvember en við höfum enn ekki farið í. Ekki slæm skipti það!!! Það er alltaf hægt að fara til Berlínar.. he he

Ágúst mánuður er hinsvega ekki planaður ennþá en ég fæ að vita í lok júlí hvort ég kemst inn í háskólann þannig að þær fréttir koma til með að hafa talsverð áhrif á framhaldið... ;)

Góða helgi elskurnar!

30 maí 2006

Verðlaunin.. ;)

Meðal þess sem Klaus fékk í verðlaun á heimsmeistaramótinu er þessi klikkaða espressóvél!!

Hún er reyndar ekki enn komin í almenna framleiðslu..og búin að vera í þróun hjá framleiðandanum í nokkur ár. Við þurfum því að bíða fram í september eftir því að fá hana senda.
Svo fékk hann líka svaka flotta kaffikvörn eins og þessi nema hún er svört og krómuð, ekki verra:

Kvörnin er þegar komin í hús... það sem verra er að þessar flottu græjur komast engan veginn inn í okkar míní eldhús!! Það er því annað hvort að fara að leita að nýju húsnæði af einhverri alvöru... eða setja upp kaffikrók í stofunni.. ;)
Ferðasaga.

Er loksins búin að dæla inn nýjum myndum hér til hægri frá Bern. Ég gerði allar útskýringar á ensku svo að vinir og ættingjar Klaus gætu líka kíkt á þær og skilið eitthvað.

En ég ætla nú líka að segja ykkur aðeins frá ferðalaginu. Við tvö keyrðum saman með troðfullan bíl af allskonar varningi... það fór heill dagur í að pakka öllu vandlega saman í kúluplast og tilheyrandi, fylla út tékklista svo að örugglega ekkert gleymdist o.s.frv... Við prentuðum út leiðina af netinu og samkvæmt því átti ferðin að taka ca. 12 tíma... hjá okkur endaði hún í 16 tímum!!
Fyrstu klukkutímana var bara gaman af þessu.. útsýnið var fallegt hvort sem það var rigning eða sól.. ;)


En það virðist vera ótrúlega mikið um vegaframkvæmdir á þýsku hraðbrautunum þessa dagana.. Oft var umferðin mjög hæg og jafnvel alveg stopp... sem betur fer virtist stappan samt alltaf verri á akreinunum á móti okkur þannig að við töldum okkur heppin.

Þegar við vorum loksins komin til Bern kl. 1 eftir miðnætti.. dauðuppgefin og sjúskuð, búin að sjá rúmið í hyllingum síðustu 3 tíma, þá var ekkert hótelherbergi handa okkur!! :( Vegna misskilnings varðandi staðfestingu á að við myndum tjékka inn mjög seint, þá var búið að leigja einhverjum öðrum herbergið okkar!!! OG öll borgin gjörsamlega yfirbókuð vegna kaffiráðstefnunnar. Ég var nokkurn veginn farin að sætta mig við að sofa í bílnum þá nótt... við keyrðum á milli nokkurra hótela án árangurs en fengum svo loks númer hjá einu hóteli sem var með EITT herbergi laust... við komumst því loks í háttinn um hálf þrjú og þurftum svo að skipta aftur yfir á hitt hótelið næsta dag.

Peter brennslumeistari kom með flug næsta dag og sá dagur fór aðallega í að taka upp úr kössum og sjá til þess að allt væri óbrotið og að ferðakælirinn væri að halda dönski mjólkinni góðri ;) Við fórum út að borða um kvöldið.. þar sem þessi réttur gerir kvöldið ógleymanlegt:


Peter pantaði sér týpískan Bern disk.. í þeirri trú um að fá sýnishorn af hinum og þessum kjöttegundum.. en nei nei.. hann fékk í staðinn heilann stafla af all konar feitu kjöti og vænan skammt af sauerkrautz undir öllu saman!! Svo er fólk eitthvað að hneykslast á sviðakjömmunum okkar!! og þó að Peter sé stór og sterkur og mjög hrifinn af kjöti þá komst hann ekki mjög langt með þennan rétt! ;)

Næsta dag fór ég á dómarasnámskeið og Klaus og Peter á keppenda fund. Dómaranámskeiðið er alltaf áhugavert.. það þarf að reyna að samræma marga og mjög ólíka dómara svo við séum öll að dæma eftir sama standard. Sumir virðast mjög ósveigjanlegair frá sínum eigin sannfæringum um hvað sé rétt eða ekki. En það er alltaf gaman að hitta alla aftur á þessum kaffiferðalögum.. ;) alls konar áhugaverðir karkaterar...

Klaus keppti í undanúrslitunum á föstudeginum.. það voru nokkrir mjög sterkir að keppa þann dag og mikil spenna í loftinu. Klappstýrurnar okkar frá kaffihúsinu og brennslunni höfðu sumar keyrt alla nóttina til að geta kvatt hann. Þær síðustu komu með flugi og voru mættar á svæðið aðeins 5 mínútum áður en hann byrjaði. Það var samt ótrúlegt hvað það myndaðist góð stemmning í salnum þegar hann byrjaði og greinilegt að það voru margir sem héldu með honum.

Ég var að dæma á laugardeginum.. dæmdi 5 keppendur í tækni um morguninn og svo 5 aftur í smakki seinnipartinn. Það voru alls 40 keppendur í ár. Það er ógerlegt að sömu dómarar dæmi alla þannig að hvert dómaralið dæmir 5 keppendur í einu.
Svo var tilkynnt hverjir komust í úrslit:


Danmörk, Ísland, Svíþjóð, USA, Kanada og UK. Þetta var ótrúlegur léttir þó að innst inni værum við nokkuð viss um að við kæmumst í úrslit. Kvöldið var því tekið rólega, við mölluðum pannacotta, kaffifroðulög, straujuðum skyrtur, dúka, servíettur o.s.frv. og fórum snemma að sofa.

Allt gekk eins og í sögu á lokadeginum. Klaus virtist voða lítið stressaður og ég held að það hafi hjálpað honnum ótrúlega mikið í keppninni því að var svo augljóst að hann hafði líka GAMAN af því að vera þarna.


Hann var greinilega í miklu uppáhaldi hjá áhorfendum og fór pínu hjá sér held ég yfir öllum fagnaðarlátunum eftir að hann hafði lokið keppni ;)

Ég get varla lýst tilfinningunni þegar tilkynnt var um sigurvegarann.. það er frábært að fá svona viðurkenningu fyrir alla vinnuna sem við erum búin að leggja í þetta. Klaus var búinn að vera að undirbúa þetta í næstum heilt ár og æfa sig mjög stíft síðustu fjóra mánuðina. Síðustu þrjá mánuði er ég búin að vera með honum við æfingar í brennslunni og ef ég á að segja alveg eins og er.. þá er ég ekki viss um að ég væri til í þetta aftur!! ;)


Ég grenjaði næstum klukkutíma eftir að úrslitin voru ljós :( svo var auðvitað skálað í kampavíni fram eftir degi og farið í lokapartiíð um kvöldið. Næsti dagur fór í að rölta aðeins um Bern sem alveg ótrúlega falleg borg. Það er eins og að vera komin í eitthvað ævintýri að vera þarna, sérstaklega þegar það var heiðskýrt og svissnesku alparnir blöstu við í fjarska. Því miður höfðum við alls ekki nógu mikinn tíma til að skoða okkur um. Síðasta kvöldið fórum við Klaus út að borða með Kaffitársgenginu.. það klikkar aldrei og var fullkominn endir á frábærri ferð ;)

Heimferðin gekk aðeins betur.. aðeins 14 tíma keyrsla! ;)

24 maí 2006

BESTUR I HEIMI!! :)

jaháts! Klaus er heimsmeistari kaffibarþjóna 2006 :) Þetta er búin að vera viðburðarík vika og allir að rifna úr stolti... Spennandi ár framundan hjá Klaus.. alls konar boð um ferðalög hingað og þangað. Geri mitt besta í að troða mér með. Það er allavega búið að bjóða mér með til Portland, Chicago, og Þýskalands.. Klaus er boðið til Ástralíu í júlí, akkúrat þegar ég er í fríi frá skólanum og við vorum búin að plana að fara í frí..þannig að nú er það mission-ið að komast með í þá ferð!! ;)

Erum uppgefin eins og er.. komum heim um 5 í nótt eftir 14 tíma akstur.. nú þarf að losa bílinn.. :(

lofa að koma með myndir og meira blogg sem fyrst!

Takk fyrir allar óskir um gott gengi og hamingjuóskir!! ;)

K biður að heilsa..

-sd

16 maí 2006

Á leiðinni til Bern..

jæja.. leggjum í'ann eftir hálftíma. 12-13 tíma keyrsla framundan. Bíllinn pakkaður af dóti og allt reddí! Eigum von á spennandi móti og skemmtilegri viku framundan. Alltaf gaman að hitta allt "kaffifólkið" í þessum ferðum ;)

veit hinsvegar ekkert um Eurovision stemmingu á þessu fólki, hún verður sennilega mjög takmörkuð.. :/

hafið það gott elskurnar mínar..

10 maí 2006

júbbs.. ég er hér! ;)

bloggið er víst ekki nógu ofarlega á forgangslistanum þessa dagana.. reyni að bæta úr því.

Það er voða mikið um æfingar hjá Klaus núna enda er heimsmeistaramótið alveg að bresta á. Við breyttum nú prógramminu ekki mikið síðan á danska mótinu enda fékk hann mjög góð komment frá dómurunum þar. Löguðum samt nokkur smáatriði. Það er ótrúlegt hvað hefur farið mikil vinna í þetta og það verður spennandi að sjá hvernig gegnur í Bern. Hann á náttúrulega eftir að heilla alla uppúr skónum þar líka.. hann er soddan sjarmör þessi elska ;)

Þannig að maður hefur lítið getað notið veðurblíðunnar sem hefur leikið við okkur hérna.. mér skilst að þetta sé nú ekki alveg normalt svona snemma sumars en hér hefur verið í kringum 20 stiga hiti síðustu vikuna og glampandi sól. En það eru komnar nokkrar freknur og smá roði í kinnarnar ;)

Stórmerkilegur atbuður átti sér stað hér fyrir síðustu helgi... ég keypti mér aðgang að líkmsræktarstöð!! ;) Ég hef nú ekki komið inní svoleiðis í rúm 2 ár!!! Þannig að ég er frekar stolt og tek mjög gjarnan við öllum hamingjuóskum! ;)

Ég kláraði loksins 2. level í dönskskólanum í dag.. ég þurfti að endurtaka það af því ég missti viku úr þegar ég kom til Íslands. Vá hvað mér leiddist hrikalega!! og nú tek ég 3ja vikna frí fyrst við erum að fara til Bern, og byrja því að 3. leveli eki fyrr en 7.júní... þannig að danskan er að koma HÆGT en örugglega !! ;)

Annars er lítið að frétta..

;)

´

30 apríl 2006

Latur sunnudagur..

það er ekki hægt að segja annað.. klukkan er að verða sex og ég er ennþá á náttfötunum ;) kannski bara ágætt til tilbreytingar. er samt alveg búin að vera dugleg.. henti inn 2 nýjum albúmum hér til hægri, skellti í amerískar pönnukökur í hádeginu, horfði á fullt af lélegu sjónvarpsefni, hékk á netinu í dágóða stund, svo á að elda kjulla í kvöldmat og læra smá dönsku.. ekki slæmt er það?!
hér er til dæmis mynd frá danska mótinu..
Annars var gærkvöldið mjög kósí.. við fórum í mat til Fritz og Vivi. Þau búa ca. hálftíma keyrslu norður af Kaupmannahöfn. Fritz sýndi snilldartakta á grillinu (úti í rigningunni). Bauð uppá tígrisrækjur í hvítlauk og nautasteik með rósmarín kartöflum... suddalega gott. Við höfum bæði kynnst Fritz í gegnum kaffistússið, hann þjálfar kaffibarþjóna út um allt fyrir keppnir (enda fyrrverandi heimsmeistari) og er líka dómari... hann hefur einmitt verið að vinna með Klaus fyrir danska mótið og svo aðeins meira núna fyrir heimsmeistaramótið... Við semsagt átum á okkur gat í gærkvöldi og kjöftuðum svo fram eftir kvöldi.

Tók nú engar myndir í gærkvöldi en hér erum við fjögur samt að éta á okkur gat í matarboði hjá Queen Sonju Grant. Dómaragenginu á Íslandsmótinu var öllum boðið uppá kóngakrabba úr Barentshafi ef ég man rétt og smakkaðist ekkert eðlilega vel.. Það klikka aldrei matarboðin hennar Sonju ;)Framundan eru fleiri æfingar fyrir Bern.. það er bæði tilhlökkun og spenna í loftinu. Við keyrum niðureftir 16. maí og verðum í tæpa viku.. þetta verða strembnir dagar eins og vanalega á þessum mótum en þetta er bara svo hrikalega gaman líka ;)

bæ í bili..

28 apríl 2006

komnar inn nýjar myndir hér til hægri.. með titlum og allt!! ;) já já ég veit.. þetta eru soldið gamlar myndir en það er meira í vinnslu!!

góða helgi!!

25 apríl 2006

Klaus er danski meistarinn 2006! :)

..og ég er hrikalega stolt af honum!! Síðustu vikur hafa verið mjög annasamar, æfingar á hverjum degi og ýmsir hlutir sem þarf að hjóla eftir úr um allan bæ. Og árangurinn kom í ljós núna um helgina.. Klaus sigraði bæði undanúrslitin, sem gerir hann að Sjálandsmeistaranum líka ;) og úrslitin með glæsibrag! Næst á dagskrá er því heimsmeistaramótið I Bern, Sviss eftir ca. 3 vikur...

skrifa meira seinna í dag.. ætla að skreppa aðeins á kaffihús núna (í fyrsta skipti lengi) og kannski setja einhverjar myndir inn hérna fyrst fólk er eitthvað kvarta ;)

15 apríl 2006

Gleðilega páska!!

Vonandi hafið þið það öll gott um páskana.. sérstaklega þarna fyrir norðan í öllum snjónum!! Hér er búið að vera yndislegt í allan dag, fyrsti almennilegi vordagurinn. Þegar ég var að hjóla heim áðan saknaði ég þess þó að finna enga grill lykt! Finnst það nefnilega mjög einkennandi fyrir Íslendinga hvað þeir eru snöggir að henda kjöti á grillið um leið og fyrstu góðu dagarnir koma.. ;)

Ég væri nú samt alveg til í að vera fyrir norðan um páskana þetta árið. Elsku besta Vigdís mín er að halda uppá þrítugs afmælið sitt þar um helgina og mér finnst virkilega glatað að vera ekki á svæðinu. Enn og aftur til hamingju með daginn í gær elsku Vigdís mín!!! Sakna þín hrikalega mikið!!
Svo væri ég líka til í að kjassast og knúsast aðeins í nýjasta frændanum í fjölskyldunni, honum Nökkva litla. Til hamingju með skírnina Sunna og co... Vona að það verði ekki of langt í að ég fái að kíkja á litla krílið.
Svo er líka bara alltaf gott að vera á Akureyri.. ;)

Ég klikkaði á íslenska páskaegginu :( sakna þó mest málsháttanna.. en ég keypti íslenskt lambakjöt í búðinni áðan til að elda annaðkvöld ;) pínkulítinn lambahrygg fyrir okkur tvö.. sjáum til hvernig til tekst ;)

kiss kiss,
sd

10 apríl 2006

it's alive!! ;)

já já.. ég er alveg á lífi, bara búin að vera löt að blogga...
Íslandsdvölin var töluvert öðruvísi en ég ætlaði mér. Vaknaði fárveik morguninn sem ég átti flug, drösslaðist nú samt uppá flugvöll og svo beint til læknis heima á íslandi. Inflúensa, 40 stiga hiti og bronkítis var sjúkdómsgreiningin þar. Minni var skellt á pensilín sem dugði ekki betur en svo að 2 dögum seinna var ég aftur mætt á læknavaktina, öll rauðflekkótt og fín og skipað að hætta á pensilíninu og taka því rólega! næstu daga. Það var nú ekki alveg inní myndinni enda mætt á svæðið til þess að dæma á Íslandsmóti kaffibarþjóna... Þannig að ég náði alls ekki að hitta eins marga og ég vildi á meðan ég var heima... reyndi að slappa sem mest af fram að mótinu, þá hrökk einhver aukakraftur í gang og allt gekk bara ljómandi vel... Lagðist reyndar aðeins í rúmið aftur þegar ég kom aftur til Köben og fór enn eina ferðina til læknis til að fá ofnæmislyf sem íslenska lækninum fannst algjör óþarfi að gefa mér.. Þannig að ég er öll að koma til núna.. ;) komin með réttan húðlit aftur og nokkurn vegin laus hóstaköst keðjureykingamannsins.. Klaus til ómældrar ánægju!! ;)

Íslenskir kaffibarþjónar sýndu glæsileg tilþrif á mótinu og Imma skvís frá Kaffitári kom öllum skemmtilega á óvart ( samt aðallega sjálfri sér held ég!) með glæsilegum sigri en það var hrikalega mjótt á mununum í lokin ! ;)

Annars komin í páskafrí frá dönskuskólanum og nú stendur undirbúningur Klaus fyrir danska mótið sem hæst... maður stússast því aðallega í því þessa dagana.. fer eitthvað lítið fyrir páskahátíðinni þetta árið hjá manni. Og ef ég hugsa til baka þá held ég að ég hafi eytt 3 síðustu páksafríum í undirbúning fyrir annað hvort Íslandsmót eða heimsmeistaramót kaffibarþjóna!!

Elín systir var í Köben um helgina ásamt 9 öðrum Trylltum Túttum! Sá saumaklúbbur stendur svo sannarlega undir nafni.. say no more.. ;) Við systurnar fengum okkur lunch saman á föstudaginn og svo fór ég með þeim öllum út að borða um kvöldið. Þar var mikið líf og fjör en ég fór fyrst heim.. já maður er djöfull lélegur í þessu!! ;)

en nú er planið að sinna aðeins húsverkunum.. ekki veitir af!! Svo á að malla dýrindis Lasagna í kvöld.. ;)

kiss kiss!

26 mars 2006

Er að pakka..

jamms.. flýg til Íslands í fyrró ;) verður gott að eiga 2-3 daga fría áður en Íslandsmótið hefst því frá og með fimmtudeginum verður prógrammið frekar stíft. En ég hlakka mikið til og verður spennandi að sjá hvernig mótið tekst. Það er ný umgjörð í ár.. semsagt ekki haldið í verslunarmiðstöð eins og undanfarin ár heldur á Matur 2006. Forvitnilegt að sjá hvernig það kemur út.

Annars voru Trabant tónleikarnir alveg geggjaðir.. nátturulega 95% Íslendingar á svæðinu þannig að maður hitti nokkur kunnugleg andlit ;) En þynnkan í gær var hinsvegar alveg hrikaleg og er enn að jafna mig :(

blogga meira á klakanum ;)

24 mars 2006

Danska, sólin og Trabant..

jæja, þá er fyrsta leveli í dönskuskólanum lokið og komst ég nokkuð áfallalaust í gegnum það ;) Það var spennuþrungið andrúmsloftið í morgun þegar einn nemandi í einu var kallaður inn í stofuna og niðurstöðurnar voru tilkynntar. Það voru nefnilega langflestir í bekknum að endurtaka og sumir jafnvel í þriðja sinn!! Hópurinn sem heldur áfram hefur náð mjög vel saman og er ég fegin að við fáum að halda hópinn... því miður er Susan kennarinn okkar farin í fæðingarfrí núna en hún hefur verið alveg frábær og hennar verður sárt saknað :(

en annars er búið að vera yndislegt úti.. ótrúlegt hvað sólin gefur manni aukna orku og léttari lund ;) Búin að vera að þvælast um á hjólinu í allan dag... núna er mangó/karrý kjúklingur a la Sigrún sæta að malla í ofninum og svo erum við að fara á Trabant tónleika í kvöld í Nordatlantens Brygge ;) jibbíí ég hlakka til ;)

Góða helgi!

22 mars 2006

Pírð augu..

já að hljómar kannski undarlega en mér finnst það virkilega góðs viti að maður sér varla fram fyrir sig í umferðinni þessa dagana! Sólin er komin á sinn réttan stað og maður farinn að píra augun aftur eftir langan tíma.. ;) Það sést fólk útí garði að spjalla í stað þess að flýja beint inn úr kuldanum og nokkrir laukar farnir að springa úr hér og þar... Þetta er BARA gott mál og yndislegt að vera á hjólinu þessa dagana ;) Nú er ég farin að fíla hjólamenningu hérna almennilega... var sko ekkert alltaf sátt við að vera að hjóla út um allt í þessum skítakulda sem hefur verið hérna..

Og tíminn líður hratt... kem til Íslands núna á mánudaginn og verð í viku í Reykjavík ;) Tilefnið er Íslandsmót kaffibarþjóna sem verður haldið á Matur 2006 í Fífunni. Er að dæma á því móti um helgina en hef nokkra daga í byrjun vikunnar til að kíkja á vini og vandamenn í borginni ;) Geggjað! ;) Klaus ætlar að koma líka en ekki fyrr en á fimmtudaginn og verður svo samferða mér heim.

Alltaf gott að koma heim.. ;)

18 mars 2006

Latur laugardagsmorgun..

ligg hérna uppí rúmi með tölvuna í fanginu og er að reyna að drösslast á fætur...
Annars er þetta búin að vera fínasta vika.. hún byrjaði á rómantískum nótum. Klaus kom heim á mánudagskvöldið með fangið fullt af blómum og gaf mér hálftíma til að hafa mig til þar sem hann var búin að panta borð fyrir okkur á veitingastað! Tilefnið var að eitt ár var síðan við kynntumst við dómarastörf á Íslandsmóti kaffibarþjóna í Smáralindinni... ég varð náttúrulega eins og bjáni, ekki var ég með nein svona plön.... og varð enn meira eins og bjáni þegar komið var á veitingastaðinn og við tók 5 rétta máltíð ásamt vínseðli!! Hrikalega góður matur á Den lille fede og kósí andrúmsloft... ;)

Svo sendi ég inn umsóknir fyrir háskólanám í haust á miðvikudaginn... fékk síðustu gögnin sem mig vantaði fyrr um morguninn.. skilafrestur var til 12 á hádegi þannig að þetta small allt saman á síðustu stundu. Ég er voða fegin að vera búin að þessu. Heilinn á mér var mjög nálægt major melt-downi við ritgerðarskriftirnar um af hverju ég vildi í þetta nám... en nú gert ég ekkert meira gert og þýðir ekkert að pæla meira í þessu fyrr en ég fæ svör í lok júlí..

Svo hef ég verið í dönskuskólanum að sjálfsögðu og gengur bara ágætlega.
Klaus er mikið að æfa sig þessa dagana fyrir danska kaffibarþjónamótið g ég hef farið með honum á flestar æfingar. Hann er með rosa fína aðstöðu í kaffibrennslunni með glænýja La Marzocco (espressovél) og allt. Ég stend yfir honum með skeiðklukkurnar, tek tímann á öllu og fæ að smakka voða gott kaffi... ;) ekki beint leiðó... svo læri ég sjálf heilan helling því þessir blessuðu Danir fara svo djúpt ofan í allt að stundum finnst mér ég ekki vita neitt um kaffi þegar ég er innan um þá.. ;)

annars er voða lítið annað að frétta... hvað með ykkur??

kiss kiss..

13 mars 2006

Ætti maður að skreppa til Líbanon??

Í dag var mér boðið að fara til Líbanon í næstu viku til að dæma á Líbanska kaffibarþjónamótinu þar. Það er haldið í Beirút. Troels heimsmeistari (kaffibarþjóna.. fyrir þá sem ekki þekkja ;)) hringdi í mig og bauð mér að fara fyrsta hann kemst ekki. Get ekki neitað því að mér finnst þetta boð hrikalega freistandi en samt veit ég ekki hvort ég myndi þora.. er eitthvað gáfulegt að vera að æða til Beirút á þessum tímum svona ljóshærð?? ég þyrfti örugglega að vera klædd íslenska fánanum svo það færi ekkert á milli mála að ég er hvorki dönsk né norsk...eða hvað?? En ég þarf nú lítið að velta þessu fyrir mér því mótið fer fram í miðri viku og ég get ekki misst svo mikið úr dönskuskólanum, þá þyrfti ég pottþétt að endurtaka levelið... en skemmtilegt boð samt sem áður.. kaffibransinn kemur sífellt á óvart!

Og svo var ég í danska sjónvarpinu í gærkvöldi!! ekki lengi að koma mér á DR1!! ;) ÞAð var sýnt frá Jótlandsriðlinum þar sem ég var yfirdómari síðustu helgi í Árósum. Við vissum af einhverju sjónvarpsfólki þar en vorum búin að steingleyma þessu. Svo vorum við bara að flakka á milli stöðva í gær og svo vorum við bara sjálf á skjánum!! Við dóum næstum, þetta var hrikalega fyndið...og versta er að maður er stundum svo alvarlegur þegar maður er að dæma að ég leit út eins og ég væri að því kominn að myrða einhvern!! ekki fögur sjón það ;)

11 mars 2006

BRRRRRR...

já, hér er skítakuldi og virðist eins og hér ætli að verða endalaus vetur. -5 gráður og hvasst í dag... reyndar er heiðskýrt og fallegt en erfitt að njóta þess allur samanherptur úr kulda.

Ég er hrikalega ánægð með hópinn sem ég er með í dönskuskólanum. Við gerum okkar besta að hafa gaman af þessum 3 tímum sem við eyðum saman 4x í viku og sýnum hvert öðru ómetanlega stuðning þegar kemur að framburðar æfingum í þessu merkilega tungumáli dönskunni. Þetta er fólk frá ýmsum löndum; Íslandi, Frakklandi, Spáni, Jórdaníu, Ástralíu, Rúmeníu, Japan, Pakistan, Rússlandi og Nígeríu... og allir hafa verið mislengi í landinu, allt frá 3 vikum uppí 10 ár. Enn sem komið er gengur mér bara skítsæmilega en mér skilst að það sé engan veginn hægt að giska á hvort kennurunum detti í hug að fella mann eða ekki... :/

En nú sit ég við tölvuna og er að reyna að skrifa 2 blaðsíður það hvað ég hafi að gera í skólann sem ég er að sækja um í haust og af hverju í ósköpunum mér ætti að vera hleypt þangað inn... ;) er að þessu á síðustu stundu að sjálfsögðu.. búin að vera að dingla mér hérna í 2 mánuði og sest loksins niður við þetta 4 dögum áður en ég á að skila inn umsókninni.. týpískt!

svo bíð ég spennt eftir að heyra fréttir af Sunnu frænku og fjölskyldu en þar er von á nýjasta fölskyldumeðlimnum í heiminn á hverri stundu ;) ég veðja á að það komi önnur stelpa... :)


Hafið það gott um helgina!
kiss kiss...

06 mars 2006

Skal vi snakke dansk?

ehemm.. fór í fyrsta dönskutímann í morgun og það gekk nú svona la la.. af 15 manna hóp voru 7 nemendur að endurtaka 1sta levelið, þar á meðal einn Íslendingur og mér skilst að maður græði lítið á grunnskóladönskunni þarna!! Til að byrja með er farið mjög nákvæmleg í framburð og rytma og engin miskunn sýnd... eins gott að vera duglegur að læra. Klaus fær að hlusta á mig í kvöld þylja upp heimaverkefni dagsins ;)

Annars vorum við í Árósum um helgina þar sem fór fram undanriðill fyrir danska kaffibarþjónamótið; Jótlandsriðillinn. Þar var ég yfirdómari og Klaus var kynnir... gott að vera svona í sama bransanum ;) Mótið gekk vel. Tveir komust áfram í úrslitin sem verða í Köben í lok apríl. Annar kaffibarþjónninn er engin önnur en hún Silla fyrrverandi Kaffitárína.. ég varð nú soldið stolt ;)

Svo er bara lítið annað að frétta.. hér er drullukalt og hvítt yfir öllu aftur, ég sem hélt að væri að koma vor.. :(

best að fara að læra..

26 febrúar 2006

Allt að koma..

jæja.. nú er ég öll að koma til. Drösslaðist fram úr rúminu á föstudaginn og hjólaði niðrí skólann sem ég ætla að reyna að komast inní í haust.. það var opinn dagur og námskynning. CBS ( Copenhagen Business School) er hrikalega flottur skóli..ég þvældist aðeins um með veskið fullt af snýtipappír og hálsmeðulum.. fór á 2 kynningarfyrirlestra og auðvitað er prógrammið sem mig langar að komast inní ( international business) með kröfur um fáránlega háa meðaleinkunn á stúdentsprófi!! Ekkert annað háskólaprógram í Danmörku fer fram á svona háa einkunn, segja þeir... er það ekki dæmigert?! Það gat samt enginn útskýrt fyrir mér hver einkunnin er á 0-10 kvarðanum eða ABC.. 10,1 er lágmarkið en Danir nota undarlegan einkunnarskala.... 13 er hæsta einkunnin, 12 er ekki gefin..6 er lágmarkseinkunn til að ná prófi en 4 er ekki gefið.. mín ekki alveg að skilja :/ En það er líka hægt að sækja um á grundvelli starfsreynslu, dvalar erlendis annahvort vegna vinnu eða náms o.s.frv... og ca. 50% af nemendum komast inn á þeim grundvelli. Ég hlýt nú að drattast eitthvað áfram þannig sökum aldurs og fyrri starfa ;) Ætla alla vega að prófa að sækja um...
en svo fær maður ekkert að vita fyrr en 28.júlí hvort maður kemst inn.. og skólinn byrjar rétt eftir miðjan ágúst..hvað er málið með það???! Þurfa Danir aldrei að plana neitt fram í tímann?? og ég get ekkert fengið að vita hvort ég fæ kúrsana mína úr THÍ metna fyrr en eftir að ég veit hvort ég kemst inn.. þá get ég sótt um að fá einingarnar mínar metnar og blessaðir Danirnir taka sé þá nokkrar vikur í viðbót til að hugsa málið um það! GARRG!
Ætla samt líka að sækja um í Niels Brock en hann er nú bara eins og einhver torfbær í samanburði við CBS og ég veit að ég fæ ekkert metið þar inn því prófakerfið þar er allt öðruvísi. Verð að þessu fram að fertugu ef ég fer þangað...

Ég lagðist nú næstum því aftur í rúmið eftir þetta allt saman en hressist við aftur í gær þegar ég rölti hér út í voða fína myndavélabúð og keypti mér eitt stykki digital myndavél fyrir tæpan hundrað þúsund kall!! ;) Canon 20D.. hún er svaðaleg!!

Og við erum loksins farin að hengja upp hillur hér i íbúðinni.. :) þannig að þetta er allt á réttri leið ;)

22 febrúar 2006

Haus fullur af hori!

já, það er bara ekkert annað.. er lögst í rúmið með snýtipappírinn við höndina, teið í hinni og tölvuna við hliðina á mér..(það er náttúrulega ekki hægt að láta sér leiðast!).. finnst eins og ég sé búin að snýta úr mér hálfum heilanum en miðað við hvað ég er stífluð enn er víst nóg eftir! :( Mjög smekklegt..

En það er nú gott að vera komin aftur til hans elsku Klaus míns.. og ég er nú farin að venjast því að vera í sambúð, fannst þetta soldið skrítið fyrst. Og það að byrja að búa með einhverjum í landi þar sem maður er útlendingur er enn erfiðara því ég er ekki vön því að vera svona háð einhverjum. Hingað til hef ég gert nánast allt uppá eigin spýtur og vil meina að ég sé frekar sjálfstæð að eðlisfari.. Þá fór því svona nett í pirrurnar á mér hvað ég þurfti (og þarf enn) mikið á honum að halda til þess að komast inní allt hérna. En plúsarnir eru fleiri en mínusarnir þrátt fyrir allt.. og gott að geta rétt einhverjum þungu pokana þegar farið er í matarinnkaupin saman.. ;)

Ég er aðeins byrjuð að vinna :) Tók að mér að undirbúa eina stelpuna sem vinnur með Klaus fyrir danska kaffibarþjónamótið.. ég er samt bara aðeins að starta henni, útskýra út á hvað þetta gengur allt saman og hvað hún þarf að leggja áherslur á.. Við eigum eftir að hittast nokkrum sinnum í viðbót. Svo í næstu viku fer ég að taka myndirnar fyrir kaffibrennsluna þeirra.

Svo skráði ég mig loksins í dönskuskóla í gær.. fór í viðtal og hélt að ég þyrfti að fara í stöðupróf.. var meira að segja pínu stressuð. Ég þurfti í raun bara að endurtaka eftir konunni nokkur hljóð og orð.. til að meta framburðinn.. hún sagði að hann væri "ekki jafn slæmur og hjá flestum Íslendingum".. ehemm.. ákvað að taka því sem hóli.. ;)
en allavega.. fyrst ég hef ekki verið í dönskuskóla hér úti áður þá byrjar maður bara á byrjuninni sem, mér finnst ágætt.. orðin þónokkur ár síðan maður lærði grunninn. Hún sagði að eflaust myndi mér leiðast fyrst að samt yrði alltaf eitthvað nýtt sem ég myndi læra í leiðinni.
Kúrsinn byrjar 6. mars og er 4x í viku frá 8.30-12.. hvert level er í 3 vikur.. og þeir eru nokkuð strangir; ef maður missir af meira en 2 skiptum innan 3ja vikna getur maður þurft að endurtaka level-ið og ef maður kemur óundirbúinn í tíma þá samvarar það því að vera fjarverandi. Og hananú! Best að vera duglegur! ;) Eftir 6.level á maður víst að vera orðinn nokkuð klár..

kiss kiss..

16 febrúar 2006

Á Akureyri

fyrir þá sem ekki þegar vita þá er ég stödd á Akureyri þessa dagana. Krummi bróðir var að missa pabba sinn og ég ákvað að koma og vera viðstödd jarðarförina sem er á föstudaginn. Það er undarlega tilfinning þegar systkini manns missir einhvern svona náinn sér eins og foreldri, en samt tengist hann mér ekkert. Það er víst þess vegna sem þetta er kallað hálfsystkini. Höddi er albróðir minn og Elín og Krummi eru hálfsystkini mín en ég tel mig fullvissa um að ég gæti ekki þekkt þau betur þau þó væru alsystkini mín.. þess vegna tala ég aldrei öðruvísi um þau heldur en systkini mín.. er ekkert að bæta þessu hálf-i við..finnst það leiðinlegt orð..

Það er alltaf gott að koma til Akureyrar, en það besta er að hitta fjölskyldu og vini sem ég átti ekki vona á að hitta aftur fyrr en einhvern tímann í sumar.. og ætla ég því að nota tímann vel fram á sunnudag en þá fer ég aftur til Köben. Ég vona því að þessum snjóbyl úti fari bráðum að linna svo maður komist nú eitthvað út úr húsi.. ;)

kiss kiss..

13 febrúar 2006

Þorramatur

Þorrablót Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn var haldið á laugardagskvöldið með glæsibrag. Það var haldið í NIMB salnum í Tivolíinu sem á íslenskum mælikvarða gæti talist til hallar eða einhverra konunglegra húsakynna svo glæsilegur er hann.. En Blótið var fjölmennt, ca. 500 manns. Við sátum á borði með Hlyn á Þórustöðum og félaga hans.. Í fyrstu gat ég ekki séð að ég þekkti neinn þarna en svo poppuðu upp nokkur kunnugleg andlit.. aðallega úr sveitinni samt, voðalega eru Eyfirðingar duglegir að flytja til Köben!! Ég hitti Bóas frá Rein, Kára, Inga, Sigurgeir úr Staðarhólsfjölskyldunni.. svo voru fleiri sem ég sá en talaði ekkert við t.d. rauðhærði bróðir Dísu í Skák sem ég man ekki hvað heitir og einn Grísarár bróðirinn.. ;) Ingi Valur hennar Kaffi-Mörtu var náttúrulega í hljómsveitinni og hægt var að sjá einstaka andlit sem sennilega eru fastakúnnar á Kaffitár.

Valgeir Guðjónsson stjórnaði fjöldasöngnum sem endaði með því að annað hvort lag var óskalag frá gestunum og var iðulega stuðmannalag.. en gömlu ættjarðarlögin fengu sitt pláss inná milli. Sendiherrann Svavar Gestsson hélt undarlega ræðu um það hversu frábært er að búa í Danmörku á þessum "lifandi tímum" og að undanfarnir dagar hafi sýnt hvað danskt samfélag er fullt af orku og tilfinningum sem ætti að gera mann stoltan af því að vera hér... hann kom reyndar beint úr flugi frá Kanarí, held að hann hafi fengið sólsting eða eitthvað.. ??

Ég varð fyrir smá vonbrigðum með þorramatinn.. það er reyndar langt síðan ég smakkaði hann síðast en ég er nokkuð viss um að ég hafi oft fengið hann betri.. Klaus smakkaði allt sem í hann var dælt og stóð sig eins og hetja.. en allur súrmaturinn var einhvern veginn allur eins á bragðið. það var varla bragðmunur á pungunum og blóðmörinu.. það var varla lykt af hákarlinum og það voru engir sviðakjammar!!
Já, ég bjóst nú aldrei við að ég yrði kröfuhörð á þorramat en þegar maður er búinn að hræða elskuna sína í viku um það hvað þessi matur er rosalegur þá verður þetta nú að vera almennilegt!! ;)

En í heildina var þetta mjög skemmtilegt og við eyddum öllum gærdeginum í þynnku, videogláp og tilheyrandi.. ;)


en úr einu yfir í annað.. og í öfugri röð.. Sigrún vinkona skellti sér yfir sundið frá Lundi á föstudaginn og við hittumst í lunch!! voðalega fínt að geta skellt sér svona á milli landa í hádegismat! ;) Það var voða gott að sjá hana, við maraþon blöðruðum og fengum okkur öl og hamborgara eins og fína dömur!! ;) Takk fyrir kíkkið Sigrún mín!

þangað til næst.. góðar stundir,
kiss kiss!

08 febrúar 2006

Komin aftur til Köben..

Eftir vel heppnaða ferð til USA er ég komin aftur í kassana... íbúðin verður nú samt heimilislegri með hverjum deginum.. ;) og meira að segja búin að taka upp úr ferðatöskunum sem ég er búin að búa í síðan um miðjan des!! :)

Það var erfitt að kveðja fjölskylduna mína í USA eins og alltaf en ferðin heim gekk vel... var aftur með 3 sæti út af fyrir mig og við vorum óvenju snögg á leiðinni eða 4,5 tíma vs. tæpa 6 á leiðinni út. Ég náði reyndar lítið að sofna, var líka spennt að komast til Reykjavíkur í nokkra klukkutíma.. ;) Það var yndislegt að komast aðeins á Kaffitár og hitta stelpurnar þar.. Sissa sótti mig á BSÍ og við fengum okkur morgunmat saman.. svo kom Jóna líka sem vann með mér hjá Sissu og Höddi bróðir.. svo keyrði Sissa skvís mig aftur í Leifstöð.. Flugið hingað gekk líka nokkuð vel þrátt fyrir full groddalenga lendingu að mínu mati en ég var síðan orðin algjörlega stjörf þegar ég loks komst í bólið hér í Köben.. var þá búin að vera vakandi í 44 tíma!!

Nú þarf maður víst að fara að lifa raunverulega aftur, leita sér að vinnu og fara á dönskunámskeið og svoleiðis. Er búin að fá tíma hjá k.i.s.s. en það er sá dönskuskóli sem flestir Íslendingar sem ég hef spurt hafa mælt með.. nýtt námskeið byrjar reyndar ekki fyrr en í byrjun mars en það verður bara að hafa það.

Ég verð lítið vör við breytt andrúmsloft vegna þessara þessara teikninga sem voru birtar.. auðvitað er mikið talað um þetta meðal fólks og fjallað um þetta í fréttum en daglegt líf gengur sinn vanagang...

bæ í bili..
-sd

02 febrúar 2006

New York

Jaeja, nu er farid ad styttast i heimferd. Vid forum til NY i gaer og skemmtum okkur hrikalega vel ;) Thvi midur hef eg aldrei getad eytt mjog miklum tima thar i einu..verd ad baeta ur thvi einhvern timann.
Vid vorum komin inn um 10.20, roltum uppa Brodway til ad kaupa mida a show. Okkur langadi ad sja Rent en thad gekk ekki thannig ad vid saum Woman in white eftir Andrew Lloyd Webber... vid vissum ekkert um thad og thad kom okkur skemmtilega a ovart.. leikhusud var rosa flott og songleikurinn minnti orlitid a Phantom of the Opera.. en i heildina var hann mjog flottur.
Fyrir showid fengum vid okkur a borda a Virgill's sem er svona typiskur southern american stadur.. vid byrjudum samt a Bloody Mary til ad hlyja okkur, thad var pinu napurt uti.. ;)
upphaflega var planid a setjast einhvers stadar eftir showid og fa okkur drykk og vera svo komin heim um 7 leytid... en tha var svo erfitt ad fara ad barnapossunin var framlengd og vid komum ekki heim fyrr en um midnaetti ;) eyddum restinni af kvoldinu a kubonskum stad thar sem fengust geggjadir Mojitos.. ;) og niraett par dilladi ser vid lifandi tonlist og drukku thess a milli appelsinusafa og mjolk!! tahd var ekki haegt annad en a dast af theim :)

I dag er sma slappleiki i gangi en er samt oll ad koma til.. aetla ad fara med Alex i mollid a eftir thegar hun er buina i skolanum..

Eg fer til baka a sunnudagskvoldid.. sem thydir ad eg verd i Reykjavik i nokkra tima a manudagsmorguninn.. aetla bara ad skella mer inn a Kaffitar i Bankastraeti og hanga thar.. ef einhver hefur tima til ad kikja a mig tha vaeri thad aedislega gaman.. verd komin thangad milli 8 og 9 og verd til rumlega 12.. ef allt gengur eftir.. en eg veit ad flestir eru i skola eda vinnu a thessum tima.. thid sjaid bara til ;)

segi thetta gott i bili..
-sd

30 janúar 2006

vorvedur i USA

ja, thad er nu ekki beint januarvedur her i Amerikunni.. bara svaka blida..sol, bjart og orugglega 15 stiga hiti a.m.k... var reyndar rigning og leidinlegt i gaer en flesta dagana hefur thetta verid otrulega fint.
Helgin er buin ad vera fin.. vid atum oll yfir okkur af sushi a fostudagskvoldid.. stadurnn sjalfur var frekar casual en japanskar konur a ollum aldri i kimono baru fram besta sushi sem eg hef nokkurn timann fengid..
Laugardagskvoldid var mjog ameriskt.. Eg for med Ray og Diane i party sem var haldid af foreldrum stelpnanna i La cross lidinu hennar Alex.. til ad safna pening fyrir naesta keppnistimabil. Thad var matur, bjor og vin og DJ MArino maetti a svaedid og helt uppi "studinu" med undarlegu tonlistarvali og kareokee.. :) thetta var agaetis kvold.. serstaklega skemmti eg mer vel vid ad skoda folkid.. eg skil ekki alveg af hverju sumir amerikanar eru svona storkostlega hallaerislegir.. permanett tuberadur toppur var malid hja annari hvorri konu tharna og klaednadurinn i fullkomnu samraemi vid thad thannig ad thid getid rett imyndad ykkur. Ray og Diane eru svona thokkalega edlilegt folk og eg hef aldrei tengt stereotypiska amerikanann vid thau sem betur fer...

Vid vorum oll frekar lot og thunn i gaer.. mer var nefnilega farid ad leidast pinu undir lok laugardagskvoldsins thannig ad eg fann mer gott plass nalaegt bjorkutnum.. ;) Eg for thvi med krokkunum i bio a Nanny Mcfee sem er agaetis barna- og fjolskyldumynd.. thad er fritt re-fill a poppid i bioinu sem vid forum i thannig ad eg var i skyjunum.. svo var bara pantadur take-out matur i gaerkvoldi og vid sofnudum yfir sjonvarpinu..

nuna er eg ein heima.. krakkarnir i skolanum, Diane i gymminu og Ray i vinnunni...

Vid forum til NY a midvikudaginn, thad verdur aedi.. og svo fer eg kannski sjalf inni Philly einhvern daginn.. mer finnst hun reyndar ekkert spes en thad er langt sidan sidast, kannski fila eg hana betur nuna..

thangad til naest kiss kiss..
-sd

27 janúar 2006

USA

Eg vona ad thetta blogg verdi thokkalega skiljanlegt.. er ad skrifa a tolvu an islenskra stafa og PC thar ad auki sem eg er endalaus klaufi ad vinna med.

En thad er allt fint ad fretta fra USA.. flugin gengu eins og i sogu.. atti von a einhverju kaos a Kastrup en thar var allt i godum gir.. thad var reyndar sma seinkun thannig ad thegar eg lenti i Leifsstod thurfti eg eiginlega bara ad hlaupa i naestu vel.. sem var half tom og eg hafdi 3 saeti fyrir mig eina sem var audvitad aedi :)

Og thad var aedislegt ad hitt host-fjolskylduna mina aftur.. krakkarnir hafa breyst otrulega mikid, serstaklega Alex.. hun er ad verda 13 ara en hun var 3 ara thegar eg var ad passa hana. Jackson er ad verda 10 ara en hann var nu bara eins og mitt eigid barn thvi hann var ekki nema 10 vikna thegar eg kom hingad haustid 1996 og eg hugsadi um thau allan daginn 5 daga vikunnar.. svo er komid nytt barn i fjoslylduna.. hann Charlie er nyordinn 2ja ara og alveg otrulega likur Jackson.. hann er mjog hrifinn af nafninu minu og kallar a mig i sifellu fra morgni til kvolds.. thetta var mjog saett fyrst en.. ehh..
Eg var pinu hraedd um ad Alex og JAckson yrdu feimin vid mig thvi thad eru 3 og 1/2 halft ar sidan eg heimsotti thau seinast.. en thad er alls ekki svo, thau komu hlaupandi til min a flugvellinum, kysstu mig og knusudu eins og theim einum er lagid.

I kvold aetlum vid ad fa possun fyrir Charlie og vid hin keyrum til Jersey a rosa flottan Sushi stad thar sem thonustustulkurnar klaedast kimono og bera fram heimsins best sushi.. get ekki bedid..
og i naestu viku fer eg med foreldrunum til New York, bara yfir daginn.. leggjum af stad snemma.. faum okkur godan lunch og svo aetlum vid ad kikja a eitthvad Brodway show seinnipartinn.. thad verdur aedi..

Klaus er rett i thessu ad leggja af stad til Brasiliu og verdur i ruma viku.. 15 tima flug framundan hja honum og 30-40 stiga hiti naestu 8 daga.. her er frekar kalt en alveg snjolaust og otrulega bjart.. og thurrt.. agaetis tilbreyting ad komast ur snjonum,rakanum og gramanum...

Eg fekk e-mail i gaer thar sem mer var bodid ad koma og daema a bandariska kaffibarthonamotinu i byrjun april.. i Charlotte i N-Carolina! Eg var ekkert sma anaegd og aetladi ad skrifa strax tilbaka og thiggja bodid.. thetta myndi rett sleppa, yrdi nykomin til Koben aftur fra islenska motinu.. tha mundi eg ad danska motid er thessa somu helgi og Klaus er ad keppa thar.. er nu ekki viss um hann yrdi sattur vid thad ad eg yrdi i burtu tha. Sma bommer en audvitad vil eg ekki missa af thvi ad sja hann keppa og adstoda hann vid thetta allt saman, thvad er i morg horn ad lita. En svo var eg ad heyra ad Elin systir er ad koma til Koben thessa helgi lika med saumo thannig ad mer er greinilega aetlad ad vera thar lika.. :) vonandi verdur mer bara bodid a USBC aftur a naesta ari..

jaeja, eg aetla ad segja thetta gott i bili..
hafid thad gott esskurnar minar.. ;)
-sd

23 janúar 2006

Flutt!

Jæja.. þá erum við loksins flutt og allt gekk vel.. reyndar enginn fataskápur kominn ennþá þannig að ég er enn í ferðatöskunni.. :( En keyptum fínasta sófa á 4000 íkr, rosa ánægð með það..
og ætli ég verði ekki bara í ferðatöskunni eitthvað fram í febrúar því ég fer til USA á miðvikudaginn og verð þar í 10 daga! Vona að öll flug verði á áætlun.. er búin að heyra alls konar sögur af Kastrup síðustu daga.. af seinkunum og aflýstum flugum.. vona bara það besta. Er allavega búin að marg athuga farseðilinn.. allt bókað á réttum tíma.. í janúar og allt!! ;)

En ég reyni nú að blogga eitthvað í Ammríkunni..
Þangað til næst.. hafið það sem allra best.

kiss kiss,
-sd

20 janúar 2006

Snjóhvít Köben..

Er búin að vera að hamast í allan dag við að mála baðherbergið og það er alveg ótrúlegur munur að sjá það núna.. á reyndar eftir að mála pípurnar.. sem eru utanáliggjandi að sjálfsögðu.. eins og í allri íbúðinni! Ætla að gera það á morgun.. En auðvitað tókst mér næstum því að stúta mér við málningarvinnuna!! Eins og mér einni er lagið tókst mér að hrynja af stólnum og utan í vaskinn þannig að annað lærið á mér er blásvart frá mjöðm og niður að hné!! Mjög lekkert!! ;) En ég þrjóskaðist nú samt við og kláraði báðar umferðir í dag... en líður núna eins og gamalli konu, er stirð og aum í öllum skrokknum.. maður er nú meiri auminginn!!

Annars er búið að moksnjóa hér í Köben síðan í gær.. lestirnar eru stopp, strætóarnir eru yfirfullir og langt frá því að halda áætlun... metróið er líka í einhverju lamasessi sem ég skil nú ekki alveg því ekki snóar þarna niðri.. Svo heppilega vill til að við erum með bíl Rasmusar (bróðir Klaus) í láni í nokkra daga þannig að maður hefur sloppið við að harka í gegnum þetta á hjólinu.. en það er reyndar álíka hark að finna bílastæði hér í Vesterbro án þess að þurfa að hlaupa út á klukkutíma fresti og breyta klukkunni...

Annars er að styttast í að ég fari til USA! Fer 25.jan að heimsækja au-pair fjölskylduna mína... hlakka ótrúlega mikið til enda næstum 3 ár síðan ég sá þau síðast. Á leiðinni til baka ( 6.eða7.feb) stoppa ég í nokkrar klukkustundir á Íslandi og var að pæla í að skella mér í bæinn og hanga á Kaffitári í Bankastræti..ef einhvern langar að kíkja á mig þar þá væri það auðvitað æði!! ;) Læt ykkur vita betur þegar nær dregur. Klaus verður I Brasilíu á nánast sama tíma og ég verð úti. Hann fer ásamt 2 öðrum úr vinnunni að heimsækja kaffibúgarð þar.. nei nei.. ég er EKKERT abbó!!! Ég gerði heiðarlega tilraun til þess að troða mér með í þessa ferð en það gekk víst ekki...

en jæja elskurnar mínar.. ég sakna ykkar hrikalega mikið! takk fyrir að vera svona duglega að kíkja á síðuna mína og það æði að frá komment frá ykkur ;)
kiss kiss..

17 janúar 2006svo eru líka komnar fleiri myndir hér til hægri.. bara bland frá síðasta ári; esjugangan mikla, Nordic Cup í Osló og nokkrar myndir af fallegu Ránargötunni minni sem ég seldi svo bara.. ;)
er byrjuð að pakka aftur.. ;)

loksins loksins!! erum að fara að flytja í íbúðina okkar, get ekki beðið!! Það verður yndislegt að komast uppúr ferðatöskunum og líka bara að komast útúr því að vera að deila eldhúsi og baðherbergi með einhverjum öðrum. Við byrjum aðeins á morgun og reynum svo að klára um helgina.. svona á milli þess sem Klaus er að vinna. Ég fékk leyfi hjá eigandanum til að mála baðherbergið og það var mikill léttir.. verð að reyna að lappa eitthvað upp á þetta ;)

Annars var helgin sérstaklega ljúf... Heimsótti Sigrúnu og Egil uppí Lund og það var voða notalegt. Sigrún eldaði geggjaðan karrý-mangó kjúkling.. svo var kjaftað, horft á video og sjónvarp og innbyrgt óafsakanlega mikið nammi og poppkorn ;)
Svo var skyr og graflax í hádeginu daginn eftir ;) Sigrún er sko almennilegur gestgjafi! og Egill Orri.. það er varla hægt að kalla hann litlu rófuna ennþá, orðinn svo stór.. hann lék sér eins og ljós á meðan við vinkonurnar kjöftuðum ofan í hvor aðra.. ;) Takk fyrir mig Sigrún mín! Það er gott að hafa góða vinkonu svona nálægt sér þegar maður er nýfluttur til útlanda.

jæja.. best að segja þetta gott í bili.. annars er það algjör draumur að vera komin á hjól og gengur bara vel.. á reyndar eftir að kaupa körfu á það. Maður er ótrúlega snöggur á milli staða núna.. en ég mæli með að skoða/kaupa ekki hjól að kvöldlagi eins og ég gerði..það lítur allt svo vel út í rökkrinu þið vitið!! ;) Daginn eftir var það aðeins meira ryðgað!! en það virkar þrusuvel og mér finnst það æði!! ;)

ástar-og saknó!!
-sd

14 janúar 2006

Skrepp til Svíþjóðar..

jamms.. er að fara að gera mig klára til að taka lestina upp í Lund þar sem Sigrún vinkona býr núna ásamt litla guttanum sínum Agli Orra. Fer núna seinni partinn og kem aftur á morgun.. hlakka mikið til að hitta þau og gera eitthvað kósí með þeim í kvöld... enda alltof alltof langt síðan við höfum eytt einhverjum tíma saman..
þannig að þetta er stutt hjá mér í dag..
hafið það gott um helgina elskurnar mínar ;)

12 janúar 2006

Hjólið mitt.. ;)

já ég keypti loks hjól í gærkvöldi ;) eftir langa umhugsun ákvað ég að kaupa notað til þess að byrja með og sjá hversu vel mér tekst að halda í það.. en mér finnst það samt fallegt ;) Það er svart Raleigh de Luxe, 3ja gíra.. svona ömmustíll á því og ég ætla að fá mér körfu framan á það ;) Þarf aðeins að láta yfirfara það, láta laga handbremsuna og eitthvað meira smotterí..það er gamalt en með sjarma!
en díses.. ég kvíði því alveg pínku að vera á því hérna í umferðinni. Ég meina.. þegar ég fór út að hjóla heima á bleika glimmer hjólinu mínu þá var það bara út á Gróttu og eitthvað svoleiðis.. þar sem enginn þvældist fyrir mér og ég hafði nánast allt svæðið út af fyrir mig... ekki alveg sami díllinn hér! hmmm...

en hafið það gott elskurnar mínar.. er á leiðinni í espressósmökkun með kaffinördanum mínum og Peter vinnufélaga hans, sem er ennþá meira geek! og jú! það ER séns á að sofna yfir öllu þessu kaffi þegar þeir tveir fara að tjá sig um það !! ;)

kiss kiss!

09 janúar 2006

Gott að sofa.. ;)

Í morgun var planið að vakna snemma og sinna praktískum atriðum. En það er svo djöfull gott að sofa að það varð ekki jafn mikið úr deginum eins og vonast var til. Fór samt og skráði mig inn í landið og fékk danska kennitölu...kannski fer mér þá bráðum að líða eins og ég sé flutt hingað en er ekki bara í löööngu jólafríi.. ;)

Svo misskildi ég eitthvað hvenær við fáum lyklana af íbúðinni.. það er ekki fyrr en næstu helgi, varð drullusvekkt því ég vildi fara að drífa í því að koma okkur þangað.. erum að drukkna í dóti hérna þar sem við erum núna.
Annars er ég búin að fá eitt lítið djobb. Kem til með að taka myndir fyrir kaffibrennsluna sem fyrirtækið sem Klaus vinnur hjá rekur. Þetta eru myndir fyrir heimasíðuna. Fer og hitti Peter á fimmtudaginn, en hann er yfir brennslunni, og fæ að vita hvað hann vill nákvæmlega. Þetta er náttúrulega mjög ólíkt því sem ég hef verið að gera og auðvitað allt digital.. eitthvað sem ég kann ekki neitt!! ;) þannig að þetta verður mjööög áhugavert ;)

bæ í bili.. og takk fyrir að vera svona dugleg að kíkja á bloggið mitt!
kiss kiss.

07 janúar 2006

Hjólakaup...

Hvort finnst ykkur að ég eigi að kaupa notað og þar með ódýrara en gæti þarfnast viðgerða... eða nýtt sem auðvitað kostar meira en er viðhaldsfrítt til að byrja með. Og hvort á ég að hugsa; "þessu verður stolið á morgun eða í næstu viku og best að kaupa það ódýrasta sem til er" eða "þetta verður minn helsti ferðamáti og getur því ekki verið nein ryðhrúga og ef ég hugsa vel um það hvar og hvernig ég læsi því þá minnka líkurnar á að því verði stolið til muna" ?? svo er líka hægt að kaupa hjólatrygging! ;)
Ég held að ég hafi bara alltof mikinn tíma til að hugsa um þessi hjólakaup og er alveg komin í hringi með þetta.. búin að marglesa smáauglýsingarnar á netinu yfir notuð hjól og þræða allar helsu hjólabúðirnar í nágrenninu.. Hvað finnst ykkur?

Annars líður mér bara eins og ég sé enn í jólafríi.. er ekki alveg að fatta að ég sé flutt hingað. En á mánudaginn fer ég og skrái mig inní landið og fæ danska kennitölu, tryggingaskírteini og svoleiðis.. þá get ég farið að opna bankareikning, skrá mig í dönskukúrs, fá mér danskt símanúmer o.s.frv.. maður þarf þessa blessuðu kennitölu til að gera allt hérna. En þá fer mér eflaust að líða meira eins og ég eigi heima hérna.
Ég er líka búin að vera með allt dótið mitt í ferðatöskum meira og minna síðan 13.desember... er alveg að verða biluð á því. Mér finnst ekki taka því að taka uppúr þeim núna fyrr en við flytjum í hina íbúðina..
æi hvað það verður gott að komast þangað..

kiss kiss

06 janúar 2006

Búðaráp..

Ef ég á að segja alveg eins og er þá er ég ekkert sérstaklega góður shoppari. Mér finnst bara ekkert sérstaklega gaman að strunsa á milli búða, skoða og vil helst kaupa án þess að máta ;) Læt það samt sjaldnast eftir mér!
Ákvað semsagt að kíkja á útsölurnar í dag en gafst upp eftir 2 búðir.. náði nú samt aðeins að kaupa.. en aðallega handklæði og sápuskál fyrir baðherbergið í íbúðinni okkar. Það er ca. 1,5 fermetri og hrikalega sjúskað, veitir ekki af að versla eitthvað lekkert inní það ;)

Skoðaði líka hjól í dag... það má víst ekki vera neitt sérstaklega flott svo því verði ekki stolið.. sá samt eitt í dag, undurfallegt, kremað á litinn með bastkörfu.. eins og sniðið inní eldhús Sveinu frænku.. ;) tékka betur á þessu eftir helgi..samt ólíklegt að ég fari útí svona flottheit.

Svo fengum við að vita í dag að ísskápurinn og gaseldavélin munu fylgja íbúðinni.. það var eitthvað óvíst til að byrja með en sem betur fer þurfum við ekki að versla svoleiðis... það er víst nóg annað sem við þurfum að redda okkur. Búslóðin hans Klaus samanstendur af rúmi, borðstofuborði, 2 bókahillum og 2 stólum... Ætla að bíða með það mission þangað til við erum búin að þrífa íbúðina.. þá verður þrammað á markaðina.. ;)

góðar stundir..

05 janúar 2006

Flutt til Köben!

jæja elsku fólkið mitt.. nú er maður bara fluttur til útlanda aftur. Get ekki neitað því að tilfinningarnar voru mjög blendnar í gær á leiðinni út á flugvöll.. ég brosti og grét til skiptis. Ég sem var búin að að vera svo mikill töffari þegar ég kvaddi alla og lét eins og þetta væri ekkert mál. En vá hvað ég á eftir að sakna ykkar allra mikið.. þó svo að spennandi tímar séu framundan og eflaust fullt að ævintýrum þá verður þetta líka erfitt.

En rosalega var ég ánægð þegar við vorum að tékka okkur inn hjá Icelandair.. náfölnaði fyrst þegar ég sá að töskurnar okkar vógu alls 56kg!! en brosti síðan allan hringinn þegar konan rétti okkur brottfaraspjöldin án þess svosem að líta 2svar á vigtina.. Sumir hefðu átt að nöldra meira yfir því hvað ég pakkaði miklu "óþarfa drasli" og hvað við ættum eftir að borga mikið fyrir yfirvigtina.. ;)

Þannig að herbergið hans Klaus er semsagt troðfullt af dóti núna og varla hægt að stinga niður fæti... en íbúðin okkar losnar sennilega strax eftir helgina þannig að við getum flutt í rólegheitunum.. erum með þetta herbergi til mánaðamóta þannig að það er ekkert stress..

Lengra verður þetta ekki í bili.. ég er nú ennþá að læra á þetta blogg, kann t.d. ekki ennþá að setja inn myndir... þetta kemur allt í rólegheitunum..þangað til næst, kiss kiss!

p.s. er að safna msn-addressum... setjið þær endilega inn á commentið eða addið mér inn hjá ykkur.. siggadora@yahoo.com