29 apríl 2008

Það eru tvær yndislegar dömur búnar að eiga afmæli núna í apríl og ég svoddan lúði og hef ekkert bloggað um það.

Vigdís yfir-tónlistarstrumpur (veit ekki af hverju mér datt strumparnir í hug!!?) á Sólheimum átti afmæli 14.apríl. Þessa dagana er hún ásamt fríðum flokki listamanna að sýna Dýrin í Hálsaskógi. Það eru ennþá þrjár sýningar eftir ef þið hafið áhuga. Ég hef því miður aldrei komið til Sólheima en mér heyrist á Vigdísi að þetta sé algjör paradís og því ekki vitlaust að skreppa í bíltúr - Dýrin í Hálsaskógi er náttúrulega bara klassík!!

Svo átti hún Elín systir mín afmæli 23.apríl. Mér skilst að hún stækki ört þessa dagana enda á hún von á sínu þriðja barni í byrjun ágúst :) Ég hlakka því sérstaklega mikið til að koma heim í lok sumar og knúsast aðeins í krílinu...

---

Það var voða gott að fá pabba og mömmu í heimsókn.. þá gerir maður ýmislegt sem gleymist oft þegar maður býr hérna. Eins og að fá sér bjór með hádegismatnum í Nýhöfn og sitja þar í sólinni og hlusta á götutónlist.. skreppa til Malmö - ódýrara að versla he he.. og fá almennilegt að éta sjö kvöld í röð - og gott að drekka með'ðí!! ;) Annars voru þau gömlu frekar sjálfráða á meðan þau voru hérna enda þurftum við Klaus svolítið að sinna vinnu og skóla. Þau voru mjög heppinn með veður og pabbi var orðinn vel (rauð)brúnn í framan enda duglegur í göngutúrunum á morgnannna - ég held að hann þekki Amager betur en ég eftir þessa ferð!

Þau komu færandi hendi eins og vanalega. Frystirinn er fullur af dýrindis lambakjöti og nóg af osti, reyktum laxi og harðfiski í ískápnum. Ég varð feginn að fá ekkert kúlúsúkk enda nýbúin að klára birgðirnar frá Krumma. Svo beið mín pakki þegar ég kom heim sama dag og þau fóru: kíló af kúlusúkki takk fyrir!!! það kláraðist í gærkvöldi - ehmm..


Það er búin að vera þvílík sumarblíða síðustu daga. Lofthitinn orðinn miklu meiri og fór alveg uppí 18 stig í dag. Flestöll tré byrjuð að laufgast og alls konar yndislegheit. Á leiðinni heim í dag hugsaði ég með mér að berar táslur og opnir skór væri sko bara málið á morgun! En nei nei.. það er spáð rigningu á morgun!

Eru ekki annars alltaf veðurfréttir í lok fréttatíma? ;)

Jæja.. nú ætla ég að poppa í kvöldmatinn! Klaus er nefnilega ekki heima og Private Practise byrjar eftir 10 mín.. ;)

knús,
sd

13 apríl 2008

Best að láta í mér heyra.

Einhver snertur af bloggleti í gangi. Eða almenn netleti.. þ.e.a.s. ég rétt drattast til að lesa tölvupóstana mína án þess að svara þeim, les blogg annarra án þess að kommenta, skima yfir einstaka fréttasíður án þess í raun að lesa nokkuð nánar..

Annars er mest lítið að frétta.. skóli, vinna, borða og sofa er aðal rútínan hér þessa dagana. Pabbi og mamma koma nú í vikuheimsókn á miðvikudaginn og þá hrekkur maður vonandi aðeins uppúr þessari leiðindarútínu.

Og ég hefði nú ekki átt að fagna vorinu svona snemma í síðasta bloggi. Það er allt búið að vera í gangi þessa vikuna: rok, rigning, hagl, sól, blíða og skítakuldi. Lenti í þessu öllu einn daginn á leiðinni heim úr skólanum.. óhætt að segja að segja að ég var eins og undinn hundur þegar ég drösslaðist inn og ekkert annað en heit sturta kom hitanum í kroppinn aftur. Þar með hvarf allur vorfílingur hjá mér og hefur ekki bólað á honum síðan!

og nú er ég aðallega búin að tala um veðrið þannig að best ég hætti í bili.. ;)

sd

p.s. Klaus er búinn að skrifa heljarinnar ferðasögu frá Guatemala og Panama á www.coffeecollective.blogspot.com ef einhver hefur áhuga. Fullt af flottum myndum! :)

04 apríl 2008

úff..léttir og vonbrigði.

Prófin búin enn eina ferðina.. mikill léttir í gangi en þvílík vonbrigði með hvernig gekk. Seinna prófið var ömurlega erfitt - náði ekki einu sinni að klára það :( Ég var svo að vona að ég gæti bara gengið þarna út og verið þokkalega örugg með mig, sérstaklega því hitt prófið gekk ekki svo vel heldur, en nei nei.. svo lá ég andvaka hálfa næstu nótt þegar rifjaðist allt í einu upp fyrir mér öll steypan sem ég skrifaði á þessar vesælu prófarkir - í fjórriti! Gæti nú notað heila bloggfærslu í að pirra mig yfir því! ;) En allavega.. ekkert við þessu að gera svosem..gott að pústa út aðeins yfir ykkur - ekki nennir Klaus að hlusta á þetta röfl í mér.

Klaus er búinn að vera á kafi í vinnu síðan hann kom heim en ótrúlegt en satt þá er fríhelgi framundan hjá honum og enginn próflestur hjá mér ;) Við vitum varla hvað við eigum af okkur að gera. Það er búinn að vera yndislegur vorfílingur hér undanfarna viku. Frá því að klukkunni var breytt á sunnudaginn þá hreinlega breyttist lyktin úti og allt varð hlýrra og grænna - eða kannski aðallega í hausnum á mér - og nú er bjart til kl átta á kvöldin. oh, ég held hreinlega að vorið sé komið :) Vona allavega að það verði svona gott um helgina.

En jæja.. skólabækurnar bíða samt núna. Nýr kúrs þegar hafinn - viðskiptalögfræði. Ég svitna bara við að sjá þykktina á bókinni og hvað letrið er smátt. Maj-Britt viðskiptalögfræðingur hlær eflaust af mér núna! ;)

Góða helgi.
sd