26 janúar 2008

Nýjasta Mad&Venner - skyldukaup!

Í febrúarblaði Mad&Venner er hvorki meira né minna en 5 síðna umfjöllun um The Coffee Collective í máli og myndum. Á forsíðunni vísar titillinn
4 Cool Kaffedrenge til þeirra og það er meira að segja fjallað um þá í ritstjóraleiðaranum.Hér er opnumyndin af þeim í upphafi greinarinnar. Ekkert smá flottir!


Frá vinstri: Linus, Klaus, Peter og Casper.

Það sem mér finnst best við þessa umfjöllun er að blaðamaðurinn hafði samband við þá en ekki öfugt. Ný fyrirtæki eru oft með fagfólk í vinnu við að redda umfjöllun og þess háttar auglýsingum. En blaðamaður Mad&Venner hafði samband við þá og ætlaði fyrst bara að skrifa litla grein um nýja vöru. En svo fannst henni og ljósmyndaranum bara svo frábært hvað þeir eru að gera að greinin endaði í fimm síðum!

Ekki slæmt að fá svona umfjöllun þegar styttist í að þeir opni nýja kaffiverkstæðið sitt (þar á meðal kaffibar) í kringum 15.febrúar á Jægersborggade 10 í Nørrebro. Það er hægt að fylgjast betur með gangi mála á coffeecollective.blogspot.com

Ferlega er ég stolt af mínu mönnum! ;)

22 janúar 2008

Skin og Skúrir í dag..

- Komst að því að ég fékk hæstu einkunn (12) í tölfræðiprófinu :-)
- Skólinn byrjar á mánudaginn en ekki 1.feb eins og ég hélt :-(
- Heimsóknin til tannlæknisins í dag kostaði 1900 dkr!!! :-(
- Ætlaði að henda út öllum fötum sem ég passa ekki lengur í en við nánari athugun (mátun) þá passa ég í þau öll aftur :-)
- Á eftir að fara aftur til tannsa í næstu viku fyrir ca. 1000 dkr - hélt að í dag væri síðasta skiptið :-(

Niðurstaða: skítblankur fýlukarl :-( ..með rótarfyllta tönn.

20 janúar 2008

Engar myndir fyrr en allt er tilbúið!!
he he.. eða svona næstum því. Það var eitthvað verið að kvarta í kommentum við síðasta blogg að það vantaði myndir af íbúðinni. Það fer kannski að styttast í þetta.. en Maj-Britt hér eru fullt af myndum af Klaus ef hann er eitthvað að blurrast í minningunni ;)

Svo er hér ein af okkur í julefrokost fyrirtækisins heima hjá Linus. Vildi að ég vissi hvað hann var eiginlega að segja...ég horfi á hann með þvílíkri aðdáun að það hálfa væri nóg ;)sd

19 janúar 2008

Stúss og aftur stúss..

Janúar er heldur betur tileinkaður íbúðinni í þetta skiptið. Þar sem við fluttum inn um leið og skólinn byrjaði síðasta haust og svo stakk ég af í viku til Mexíkó að dæma tveim dögum seinna, þá var farið beint í að vinna upp skrópið í skólanum þegar ég kom tilbaka í stað þess að koma sér almennilega fyrir.

En nú er frí í skólanum allan janúar.. um síðustu helgi tók ég uppúr síðustu kössunum, magnarinn og dvd spilarinn komust loksins af gólfinu og uppí hillu, í dag verður hengt upp fatahengi frammi á gangi og ég er á fullu að mála kommóðuna hvíta. Svo er aldrei að vita nema baðherbergið verði málað um næstu helgi og að kannski maður kaupi rúllugardínu fyrir svefnherbergisgluggann!! Ég er nú löngu búin að venjast því að sofa með götuljósið úti skínandi í andlitið á mér en vil nú helst ekki strippa mikið meira fyrir gangandi vegfarendur... ;)

Þannig að þetta mjakast allt saman og er að verða bara asskoti huggulegt. Ætli áramótaheitið sé samt ekki að finna hæfilegt borð fyrir espressóvélina - það gæti nú tekið allt árið samt!

Góða helgi..

sd

11 janúar 2008

Pósturinn Páll og kötturinn Njáll..

Ég fékk þetta lag á heilann um daginn og losna ekkert við það - versta er að ég man bara þessa einu setningu þannig að þetta er hálf þreytandi. Svo er ég svo mikið að reyna að muna hvaða leikari það var sem las inná þessa þætti þegar ég var krakki - var það kannski Bessi Bjarna?? Nei mér finnst eins og röddin hans hafi verið aðeins kvenlegri.. pósturinn Páll var nú svoddan pjattrófa er það ekki?

Aðal ástæðan fyrir þessum pælingum er að ég tók að mér smá afleysingastörf í póstdreifingu núna í janúar fyrst það er frí í skólanum. Þetta er nú ekkert sjúklega skemmtilegt en maður lætur sig hafa það. Þetta eru yfirleitt ekki nema 4-5 tímar á dag en ágætis púl. Þvílíka tröppuþrekið í þessum 5 hæða húsum hérna. Ég get alveg lofað ykkur því að ég er þegar búin að hlaupa af mér jólaspikið, það var nú ekki lengi gert!!

Ég ætla nú að reyna að finna mér eitthverja skemmtilegri vinnu með skólanum þegar hann byrjar en þessi vinna var auðveld að hlaupa inní strax eftir áramótin. Danir eru nú ekki þekktir að afgreiða atvinnuumsóknir á undir 3 vikum þannig að ég vildi ekki eyða öllum janúar í að bíða eftir einhverju svoleiðis.

Janúar dagarnir fara semsagt í þetta.. svo þvælist ég aðeins á netinu í frekari atvinnuleit og algjörlega óþörfum blogglestri hjá bláókunnugu fólki.. svo er ég farin að sinna baðherberginu aðeins aftur. Ég stekk þar inn þegar ég er í stuði til og pússa eina og eina flís en eins og þið vitið að þá er ég komin með krónískt ofnæmi fyrir þessu baðherbergi síðan ég eyddi heilli viku í að skrapa málninguna af flísunum þarna einhvern tímann í haust - kannski að þetta klárist fyrir páska! ;)

Annað er nú ekki meira að frétta héðan úr rigningarbælinu. Bara týpískur rólegheita janúar. Fyrir nákvæmlega ári síðan sóluðum við okkur í Kosta Ríka, þömbuðum Bloody Mary og Piña Colada og fengum að tína kaffiber af trjánum á La Minita kaffibúgarðinum... ég læt mig bara dreyma í þetta skiptið ;)

Góða helgi mín kæru..

sd

04 janúar 2008

Gleðilegt nýtt ár!

Já svei mér þá, barasta komið 2008! Alveg hreint ótrúlegt. En mér lýst bara vel á það. Árið 2007 var nú samt nokkuð gott. Sló persónulegt met í að ferðast á kostnað annarra og í að búa inná öðrum með alla búslóðina í geymslu út í bæ.

Svo ég útskýri nú betur þá var mikið um ferðalög þar sem ég var að dæma á kaffibarþjónamótum og ferðast með Klaus í boði hinna og þessara kaffifyrirtækja. Byrjuðum t.d. árið í Costa Rica að heimsækja La Minita kaffibúgarðinn sem var sko algjört æði! Svo var ég að dæma í Eistlandi, Þýskalandi og á Íslandi. Stuttu eftir Íslandsferðina fórum við í smá vinnuferð til Barcelona. Mikið var æðislegt að koma þangað aftur, fannst samt hálf skrítið að ég hafði einhvern tímann búið þar. Svo kom smá pása með vorinu hjá mér enda nauðsynlegt að sinna skólanum aðeins ;). Klaus þvældist um Kenýa, S-Afríku og USA á meðan. Svo fór hann aftur til S-Afríku júlí og ég fékk að fara með!! Í byrjun ágúst fórum við til Japan á heimsmeistaramót kaffibarþjóna. Ég dæmdi á mótinu og Klaus rölti um svæðið sem fráfarandi heimsmeistari og lét taka af sér myndir ;). Eftir mótið héldum við svo nokkur námskeið í Tokyo og Kobe með smá túrsitastoppi í Kyoto. Þessi ferð var alveg meiriháttar en það versta við þessar kaffiferðir er að það er lítill tími til að skoða sig almennilega um. Hefði líka alveg getað eytt meiri tíma í S-Afríku enda alveg hrikalega fallegt þar.

Stuttu eftir heimkomu frá Japan fór ég í kærkomið 2ja vikna frí til Íslands og leyfði Klaus að mála nýkeyptu íbúðina okkar sem við fengum óvænt afhenta tveim vikum fyrr enn áætlað var, daginn áður en ég flaug til Íslands.. ehemm... Náði að hitta alveg ótrúlega marga og ekki alveg á jafnmiklum hlaupum eins og svo oft í styttri heimsóknum. Svo kom ég heim í nokkra daga, við náðum að flytja og ég að mæta í örfáa tíma skólanum áður en ég fór til Mexíkó City að dæma á landsmótinu þar. En eftir þá ferð hef ég svei mér þá bara náð að vera að mestu heima hjá mér og reynt að sinna skólanum aðeins betur enn í fyrra - það sést líka aðeins á einkunnunum he he..

Jólafríið á Íslandi var alveg yndislegt. Hvít jól og endalaust mikið af góðum mat skemmtilegum félagsskap, sökkti mér gjörsamlega í sörudallana hennar mömmu! Komst svo hingað til Köben á næstsíðasta degi ársins þrátt fyrir skapmikla veðurguði og átti fín áramót hér. Saknaði nú samt purusteikarinnar hans pabba hrikalega mikið!!

Og nú er kominn 4.janúar sem þýðir að tvær frænkur mínar eiga afmæli í dag - og þær eru nöfnur í þokkabót. Guðný Ósk (systurdóttir mín) er 13 ára og Guðný Jóhannesar (erum bræðradætur) er .. tja.. á besta eldri er það ekki?? ;) Innilegar hamingjuóskir til ykkar beggja elskurnar mínar!!

Þrátt fyrir mörg meiriháttar ferðalög á þessu nýliðna ári þá held ég samt að hápunkturinn hafi verið að komast í varanlegt húsnæði eftir talsverðan þvæling. Það fór nú samt ofsalega vel um okkur hjá Mie þessa rúmu fjóra mánuði sem við vorum hjá henni og krökkunum og hún var voða fegin að hafa okkur á meðan Rasmus var í burtu. Við fluttum svo út í sömu viku og hann kom heim eftir sex mánuði í Afganistan.

Á þessu ári hlakka ég því mest til að klára að koma mér almennilega fyrir hér í litlu holunni okkar og gera hana fína.

ta ta,
sd