26 febrúar 2007

Ársæll Kolgrímur Hrafnsson..

Jamms, litli bróðursonur minn heitir virðulegu nafni og hann ber það vel ;) Hann er orðinn 9 ára gaurinn!! Innilegar hamingjuóskir með daginn elsku Kolli minn!
Knús til þín og Unnar og Krissíar... og bara allra ;) Ég sakna ykkar!

sd

21 febrúar 2007

Úti á túni... LANGT úti á túni!!!

Hef verið eitthvað voðalega utan við mig þessa dagana.. Eitt kvöldið gerði ég dauðaleit af tannburstanum mínum og var á endanum komin á það stig að leita á ólíklegustu stöðum.. fann hann svo í ískápnum! í grænmetisskúffunni!!! Ég hafði sko verið komin inn á bað til að tannbursta mig þegar ég mundi eftir einhverju ófrágengnu inni eldhúsi og fór úr einu yfir í annað..

Og í dag rakst ég á nær fullan poka af gulrótum í frystinum!!! Ég gerði gulrótarsafa í gær og man að ég leitaði að ísmolum....?
Er ferlega svekkt, 2kg af lífrænt ræktuðum gulrótum eru sko ekkert ókeypis!! Hvað er eiginlega í gangi með mig???

Hljóp út áðan og keypti fleiri gulrætur, get sko ekki verið án juicer-græjunnar þessa dagana..gulrótar-epla-sítrónu-engifer safinn í miklu uppáhaldi ;)

sd

19 febrúar 2007

Eistland og Ísland

jamms, það eru fleiri ferðalög framundan. Um miðjan mars fer ég til Tallin í Eistlandi að dæma :) Þetta verður reyndar óþarflega nálægt fjórðungalokum í skólanum en ég bara gat ekki sagt nei! Verð bara að skipuleggja mig soldið næstu vikurnar. Sonja Grant verður yfirdómari í Tallin þannig að það verður smá Kaffitárs-reunion líka ;)

Svo komum við bæði til að dæma á Íslandsmótinu um miðjan apríl! JEII! hvað ég hlakka til!! Verður samt bara stutt stopp (til að takmarka skróp í skólanum), komum 11.apríl og verðum til 15.. Það var mjög freistandi að bæta 2-3 dögum við dvölina en það gekk nú ekki betur í fyrra en að ég lá í flensu þá daga sem ég ætlaði að vera að heimsækja alla.. þannig að svona verður þetta bara.

Annars er allt við það sama hér... íbúðaleit gengur hægt. Held að við bíðum með að kaupa. Hef það bara ekki í mér að kaupa 50 fm íbúð fyrir 20 millur!! Vil þá frekar bíða aðeins þangað til maður getur keypt fyrir aðeins meira og fá þá miklu fleiri fermetra. Þannig að ef þið þekkið einhvern sem þekkir einhvern osfrv. hér í Köben sem veit af góðri íbúð til leigu... á sanngjörnu verði.. þokkalega miðsvæðis.. Let me know!!

Svo fann ég nú aðeins fyrir því í kvöld að meirihlutinn af dótinu okkar er í leigðri geymslu útí bæ.. Ætlaði nefnilega að elda þessa frábæru litríku og hollu súpu sem ég gerði um daginn.. uppúr uppskriftabókinni hennar Jasmine. Var með hráefnalistann fyrir hana í minnisbókinni síðan síðast en fattaði svo þegar ég kom heim að bókin er í geymslunni. Ég þóttist nú samt muna hvernig átti að gera.. ehhhm.. Úr varð ferlega þunn og fölleit en brjálæðislega sterk súpa.. ekkert í líkingu við þá sem ég eldaði áður!! Og nefrennslið varð svo rosalegt að ég held ég sé búin að snýta úr mér heilanum!! Meiningin var að Klaus hitaði hana upp þegar hann kemur heim seinna í kvöld.... sjáum til.. svona er maður misheppnaður í eldhúsinu!!

knús til allra,
sd

17 febrúar 2007

Júróvisíon..

Ég hef nú ekki haft þolinæði til að hlusta á öll lögin sem komust í úrslit en hef ákveðið að halda með Eiríki Hauks (þó mér finnist vanta allan hápunkt í lagið).. Heiða gæti hugsanlega fengið betri kosningu samt, það eru jú nokkrar kynslóðir sem muna ekkert eftir Gaggó Vest, Icy og velgengni Eika í Landslagskeppnunum með Helgu Möller! ;)
Verð reyndar í matarboði með stelpum úr skólanum í kvöld þannig að ég næ ekkert að fylgjast með.. sms verða vel þegin ;)

kiss kiss,
sd

14 febrúar 2007

Afmælisbörn..

Nú verð ég sko aðeins að afsaka mig.. var rétt í þessu að muna eftir afmæli Krumma bróður.. sem var 10.febrúar!!! Og Guðný amma mín á Öngulsstöðum átti afmæli í fyrradag 12.febrúar. Ég mundi sko eftir þeim báðum daginn FYRIR afmælið en það er víst ekki nóg... Þannig að til þess að koma í veg fyrir að Unnur bróðurdóttir mín gleymist á morgun þá ætla ég að óska henni -og pabba hennar og langömmu- innilega til hamingju með daginn!! Hún er barasta orðin 17 ára!! úff hvað tíminn líður hratt.. ég man svo vel eftir því þegar ég var að labba heim eftir langan fimmtudag í Hrafnagilsskóla og var mikið að hugsa hvort það biðu mín fréttir heima.. Það var sko enginn gsm til að tékka bara á stöðunni!! Svo fæddist hún seinna um kvöldið. Þetta var nú næstum því eins og að eignast systkini því Krummi, Anna og Unnur bjuggu hjá okkur fyrsta árið hennar Unnar. Nú er hún orðin algjör pæja og byrjuð í Menntaskólanum á Akureyri.. og það verður mikið áfall fyrir mig að sjá hana sennilega keyra bíl næst þegar ég sé hana!! ;)

jamms.. maður verður nú ekkert yngri með árunum!

sd

07 febrúar 2007

Farin til Frankfurt..

Verð að dæma á þýska kaffibarþjónamótinu um helgina, fer á morgun og kem tilbaka á sunnudaginn. Þetta verður svaka törn, meira en 30 keppendur og 12 dómarar sem skiptast á svo við förum ekki yfirum á koffein inntöku ;)

En ég var auðvitað búin að lofa ferðasögu... ehemm.. hún er í vinnslu!! Jamms, endalausar afsakanir... en hér er smá forsmekkur:
Piña Colada á laugarbakkanum í 28 stiga hita ;)

Hossuðumst svo í rútu alla leið upp að eldfjallinu Poas.. Svo var bara geggjuð þoka og skítakuldi við gíginn og við sáum ekki neitt!! Samt var það Kodak moment!!

Og svona var útsýnið frá pallinum þar sem við gistum á La Minita kaffibúgarðinum.. ekki slæmt!!


Framhald síðar....

kiss kiss,
sd