12 febrúar 2009

Fæðingarsagan - Ísak Thomsen



Jamms, við erum búin að nefna hnoðrann okkar Ísak :) og ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum fyrir yndislegar kveðjur síðustu vikuna í öllum formum; sms, fésbókin, símtöl og email. Æðislegt að heyra frá ykkur öllum en ég hef engan veginn getað svarað ykkur öllum. En nú langar mig að segja ykkur betur frá fæðingunni.

Ég vaknaði á miðvikudagsmorguninn 4.feb og tók fljótt eftir Því að ég var hrímlek. Vissi varla hvort ég væri hætt að halda þvagi eða hvað eða hvort þetta væri bara þunn útferð sem er víst algeng í lok meðgöngu. Það hvarflaði allavega ekki að mér að þetta væri legvatn.. var búin að hafa það svo sterkt á tilfinningunni að ég myndi ganga framyfir og ég var náttúrulega bara gengin rúmar 38 vikur. Það komu engir verkir með þessu þannig að ég hringdi ekki uppá deild fyrr en um hádegið. Þær sögðu mér að koma í tékk en Þórey var á leiðinni í heimsókn með Óskar litla og ég hafði bakað múffur og allt! Við ákvaðum að ég kæmi bara seinnipartinn fyrst ég var ekki með verki. Ég ætlaði sko að ná að hakka í mig nokkrar gulrótarmúffur áður en ég færi að brasa í þessu. Ég fór bara ein uppá spítala, hafði bara sent Klaus í vinnuna um morguninn enda átti ég ekki von á að þetta væri nokkuð. En ljósan staðfesti jú að þetta var legvatnsleki en án nokkurar útvíkkunar og leghálsinn var enn frekar þykkur. Ég fékk stikpillu lagða upp á bakvið leghálsinn til að hjálpa til við að koma þessu af stað og Klaus kom til mín úr vinnunni þar sem ég þurfti að vera í monitor í smá stund eftir það. Ég fór nú smá panikk yfir öllu sem mér fannst ég eiga eftir að gera. Var viss um að það væru amk 2 vikur til stefnu. Við fórum heim og ég beint í að þrengja sængurfötin sem ég vildi hafa fyrst á sænginni og við kláruðum loksins and pakka í blessuðu spítalatöskuna. Um nóttina byrjaði ég að fá verki á 10 mín fresti og um morguninn voru hríðirnar að koma á 5-6 mín fresti en þær voru ekki mjög langar. Við áttum að koma í annað tékk uppá deild og um leið og við mættum þangað datt allt niður! Leghálsinn var samt orðinn styttri og mýkri og ég komin með ca 1 í útvíkkun. Ég fékk því aðra stikpillu lagða upp og pensilín vegna sýkingarhættu þegar belgurinn er rofinn svona lengi og við send aftur heim. Mér fannst þessi pilla gera lítið gagn. Fékk nokkrar hríðir en mjög óreglulegar.. náði meira að segja bara að leggja mig aðeins seinnipartinn.

Vorum svo mætt aftur í tékk um hálf fimm. Við vorum viss um að vera bara send aftur heim en svo var ég komin með 2 í útvíkkun sem er of mikið fyrir aðra stikpillu og þá átti ég að fá hríðaukandi drip í æð. Við vorum semsagt ekkert á leiðinni heim aftur fyrr en með barn í fanginu! Áður en farið var í það var mér boðin úthreinsun sem ég þáði og hún kom þessu eiginlega öllu í gang! Var varla staðinn upp af klósettinu fyrr en hríðirnar komu með 2 mín fresti! Hríðaukandi í æð varð því óþarfi. Ég missti svolítið fókusinn við að þetta fór allt í einu frekar hratt í gang. Svo fékk ég að vita að það væri ekki í boði að nota baðkarið því ég þurfti að fá pensilín í æð seinna út af því hvað belgurinn var búinn að vera rofinn lengi. Ég sem hafði jafnel íhugað vatnsfæðingu þannig að allt í einu var ég búin að gleyma öllu öðru sem var í boði og gat ekki hugsað um neitt annað en að anda mig í gegnum hríðirnar. Loksins hafði ég rænu á að biðja um nálastungur og heita bakstra en fannst það hjálpa takmarkað. Um kl 21 var ég mæld og komin með 4-5 í útvíkkun. Mér fannst þetta sko ekkert ganga! Enda með frekar bjagað viðmið þegar vinkonur mínar (Maj-Britt og Sigrún) skjóta út sínum börnum á 3,5 tímum að meðaltali!! Ég byrjaði að nota hláturgasið þrátt fyrir að gúmmílýktin af grímunni væri að drepa mig og mér varð hálfóglatt af henni. Fannst gasið lítið gera við verkjunum en ég náði að hvílast aðeins betur í pásunum.

Nú voru hríðirnar byrjaðar að koma 3-4 í röð með aðeins 2ja mín pásu og ég engan veginn að sætta mig við að vera bara komin með 5 í útvíkkun! Ekki bætti úr sök að hafa tómt baðkarið þarna við hliðina á mér!! ;) Klaus var mjög duglegur að nudda á mér mjóbakið í hverri hríð og hugsaði vel um mig. Ég þrjóskaðist með gasið í ca hálftíma í viðbót og bað síðan um mænudeyfingu. Ég var drulluhrædd við að láta krukka svona í bakinu á mér en lét mig hafa það hékk bara í gasgrímunni á meðan ;) En þetta var sko besta ákvörðunin. Þvílík snilld þessi mænudeyfing! Hef sjaldan fundið fyrir jafn miklum létti og við Klaus gátum loks talað aðeins saman og ég gat brosað aðeins til hans aftur! ;) Það var varla búið að sprauta dópinu í mig þegar ég fór að finna fyrir rembingsþörf. Ljósan varð hissa og mældi mig og þá var ég allt í einu komin með 8 í útvíkkun :) Hún sagði að bara það að taka ákvörðun um deyfingu gæti hjálpað manni svo til að slappa vel af að um leið og hún færi að virka opnaðist leghálsinn um leið. Nú gátum við bara ‘beðið’ eftir að útvíkkunin kláraðist. Ég fann vel fyrir þrýsting og pressuþörf í hverri hríð en gekk vel að pústa mig í gegnum þær. Rétt fyrir miðnættið voru vaktaskipti og við vorum svo heppin að fá ljósuna okkar úr meæðraverndinni með okkur í lokasprettinn :) Útvíkkun var lokið en lillinn átti bara eftir að snúa sér aðeins. Hún rétt náði að leggja fram græjurnar sínar áður en ég mátti byrja að rembast. Um það hálftíma síðar (kl 00.47, 6.feb)fékk ég pungsann litla heitan og slímugan á bringuna á mér! Hann lét strax vel í sér heyra og náði fljótt augnsambandi við okkur. Mikið var það yndislega skrítin tilfinning að fá hann allt í einu í fangið :)

Í heildina er ég bara ótrúlega ánægð með hvernig fæðingin gekk. Hún var hæg í gang en þegar ég loks fékk almennilega reglulegar hríðir tók hún í raun ekki nema 7 tíma. Ég fékk örfá spor innan í skeiðina sem ég hef ekkert fundið fyrir síðan og hef verið mjög fljót að ná mér líkamlega.

Við vorum þrjár nætur á spítalanum þar sem hann var frekar lár í blóðsykri fyrstu dagana. Við þurftum að vekja hann á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn til gefa honum og hann fékk auka mjólk með brjóstinu þangað til ég byrjaði að framleiða almennilega mjólk. Svona lítil kríli mega víst ekki við því að fá bara brodd fyrstu dagana, annars léttast þau svo mikið. En hann hefur verið ótrúlega duglegur. Hjúkkan kom til okkar í morgun hann hefur þegar náð fæðingarvigt sinni og vel það. Orðin 2800 gr aðeins 6 gamall. Hann er ótrúlega vær og góður, mikið matargat og finnst endalaust gott að láta kúrast með sig. Hjúkkan var ótrúlega ánægð með hann í dag og það er yndislegt að sjá hvað hann er meira vakandi á milli lúra og vill 'hanga' aðeins með okkur í staðinn fyrir að sofa bara eins og þegar að hann var sem lægstur í blóðsykrinum.. hann var algjört deig greyið og hélst varla vakandi til að drekka ;)

Hann er algjör sjarmör þessi litla elska og við foreldrarnir eru hreinlega í skýjunum með litla Ísak okkar :)

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

takk fyrir þetta ekki laust við að maður tárist við lesninguna og hún rifjar upp margar ljúfar minningar. Árdís var einmitt löt við að drekka og þurfti ég að vekja hana stanslaust og gefa henni selbit í kinnarnar til að hún héldi áfram að drekka en færi ekki bara að sofa. En það lagaðist fljótt og hún varð algjört matargat. Fyndið hvað þau eru eins í þessu enda nákvæmlega eins stór fædd og bæði fædd á 38 viku. Það er jú margt líkt með skyldum.

Og til hamingju með nafnið, það er gullfallegt eins og snáðinn sjálfur.

Hlakka rosalega til þess að hitta hann í eigin persónu.

Knús og kossar á ykkur öll

Guðný og co

Veinólína sagði...

Mikið var gott að fá að lesa þetta Sigga Dóra mín og ég segi eins og Guðný, ég bara táraðist! :)

Hann er svo dásamlega fallegur og gott að heyra að hann braggast vel. :)

Hafðu það endalaust gott elskan mín, ég sakna þín svoooo mikið!!

Þín Vigdís.

Maja pæja sagði...

Sammála síðustu ræðumönnum, ég táraðist. Maður upplifir sínar fæðingar í gegnum svona sögu og hversu dásamleg þessi tilfinning er að fá krílið sitt í fangið. Svo er svo gaman að lesa og finna hvað þið eruð hamingjusöm og maður getur ekki annað en tárast þegar að maður sér litla sæta Ísak ykkar. Ég vildi óska þess að ég væri hjá ykkur og gæti sýnt ykkur Þóru Guðrúnu og fengið að knúsa Ísak. Hjartanlega til hamingju með gullmolann ykkar hann er dásamlegur. Ég sendi góðan pakka næst þegar að ég er í bænum. Knús elsku Sigga Dóra mín, og kysstu strákana þína frá okkur öllum.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með þetta allt saman Sigga Dóra -- litla guttann, nafnið hans, trúlofunina o.s.frv. Mér finnst eins og að ég viti nákvæmlega hvernig þér líður þar sem að ég eignaðist lítinn strák í júlí s.l. og er að fara að gifta mig eftir viku.

Gangi ykkur vel :-)

Kveðja ---
Jónína

P.s. ég er alveg sammála þessu með mænudeyfinguna!

Sigrún sagði...

Yndislegt! Gott að heyra að þetta var jákvæð og góð upplifun, ég held það skipti miklu. Gerði það amk fyrir mig. Æi þetta er svo dásamlegt og þessir fyrstu dagar. Gott að heyra að hann er duglegur að drekka, það er ótrúlegt hvað þau geta braggast á þessari brjóstamjólk.Litla "svanga-Manga" mín lá einmitt á brjóstinu meðan ég las þetta. Enginn staður finnnst henni betri enda strax orðin svo stór að mér finnst hún bara ekki vera neinn nýburi lengur.
Vona að allt gangi áfram svona vel hjá ykkur Sigga Dóra mín.
Knús á ykkur öll

Nafnlaus sagði...

Sigga Dóra mín. Þú ert sjálfsagt búin að frétta á facebook að það kom barn í fjölskylduna 15. febr. á afmælisdegi Unnar. Stór og falleg dökkhærð stelpa hjá Lúlla og Agnesi. Jóna var að sýna mér myndir af henni.
Videóið af Ísak var yndislegt svo ekki sé meira sagt. Mér sýnist hann vera líkari Klaus en þér. Það er fjölgunarvon hjá okkur pabba þínum um næstu mánaðarmót, einn fjölskydumeðlimurinn er óléttur, alveg óvart og óplanað. Hefur þú vitað annað eins? Ég er í vægu losti,vona bara að þetta verði yfirstaðið áður en ég fer í fríið. Þú færð sendingu af mjög litlum fötum bráðum, kveðja, mamma.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju bæði tvö með fallega drenginn ykkar og trúlofunina! Svona er þetta með fæðingar og meðgöngu, það fer ekkert eins og maður er búin að ákveða það :)

Bið að heilsa,

Imma

Nafnlaus sagði...

Elsku Sigga Dóra og Klaus til hamingju með glæsilegt nafn. Og jú, mænudeifing er helvíti góð uppfinning;) Fór að heimsækja afa og ömmu upp á Hlíð þann 12. febrúar á afmæli ömmu og afi var fljótur að fara inn í herbergi og ná í mynd af Ísaki voða stoltur og ég lét bara sem ég hafði ekki séð hann á mynd áður:)

kv. úr sveitinn. Sunna og fjölskylda

Nafnlaus sagði...

YNDILSEGT!! Vá hvað þetta er falleg frásögn og eiginlega góð upplifun. Þú varst rosalega dugleg.

Til hamingju með fallega nafnið!!

Kosss ÓLÖF