27 nóvember 2007

Ekkert að frétta

..og mér dettur voða lítið í hug að blaðra. Það er bara same old, same old hérna megin. Er í smá afneitun þessa dagana - vil ekki hugsa um hvað er stutt í næstu próf og jólin. Slysaðist til að hugsa um það síðasta sunnudagskvöld og varð þar með andvaka alla nóttina! Þannig að þá er bara best að sleppa því - er það ekki?
Held að það sé smá skólaleiði í mér. Fólkið sem byrjaði í THÍ á sama tíma og ég í jan'04 er að klára núna um jólin. Og ég rétt hálfnuð!! OG ég veit vel að það er svo margt gott sem ég hef upplifað í staðinn en ég væri samt alveg til í að vera búin að þessu.. pirr pirr!

Er búin að vera að þvælast mikið á atvinnuleitarsíðum undanfarið - þarf að finna mér vinnu með skólanum. Langar svo að finna eitthvað tengt náminu en verð hálf vonlaus eitthvað þegar ég les starfslýsingarnar og kröfurnar - og ég með ekkert nema kaffhúsastörf og ljósmyndun á ferilskránni. Ætli maður endi ekki bara á kassa í Nettó svei mér þá!!

Ég fékk nú samt smá gleðifréttir í gær. Fékk barasta fínustu einkunn úr 48 tíma heimaprófinu sem ég vakti yfir alla síðustu nóttina. Ég hef nú aldrei bullað jafn mikið í í þeirri ritgerð og nú er ég ekki að ýkja - þannig að greinilega er eitthvað vit í bullinu í mér!! he he..

sd

21 nóvember 2007

Léttir

Ég þarf að hafa þessa færslu svolítið dulkóðaða svo að betri helmingurinn skilji ekki hvað ég er að skrifa um. Ég er nefnilega svo ánægð með að ég er búin að kaupa gjöfina handa honum fyrir hátíðina í næsta mánuði :) Vá hvað ég er fegin! Síðustu tvö ár hefur þetta verið þvílíkur hausverkur sem ég hef beðið með fram á síðustu stundu að afgreiða. Keypti flík sem ég veit að hann langar í. Hún er í felum heima hjá bróður hans því það eru engir felustaðir hér í holunni okkar.
Þetta er persónulegt met! Hef aldrei keypt jólagjöf svona snemma. Hef oft dáðst af Guðnýju frænku og Elínu systur sem stundum eru búnar með öll þessi innkaup í september!! (eða er ég að ýkja stelpur??)

Nú ætla ég að hætta að dást af þeim og dáist bara af sjálfri mér í staðinn!! he he..

ta ta..

17 nóvember 2007

Enn ein afmæliskveðjan..

Hún elsku besta Maj Britt mín á afmæli í dag. Innilegar hamingjuóskir með daginn elsku vinkona! Vona að allir hafi stjanað við þig í tilefni dagsins..

Maj Britt og Klaus eiga það sameiginlegt þessa dagana að þau eru bæði að kljást við þrjóska sinaskeiðabólgu. En Maj Britt mín, eftir að Klaus sá myndina af þér með gifs á báðum þá hætti hann sko öllu væli!! ;)

Afmælis- og batakveðjur frá okkur báðum.

16 nóvember 2007

Pabbi minn á afmæli í dag!


Til hamingju með daginn elsku pabbi! Maður á besta aldri ;) Vonandi gerið þið nú eitthvað í tilefni dagsins, annað hvort í kvöld eða um helgina. Ég væri nú alveg til í að mæta í smá fjölskyldu dinner um helgina en það verður að bíða í nokkrar vikur.

Talandi um jólin, þá kem ég til landsins á aðfararnótt þorláksmessu (takk Icelandair fyrir frábæra tímasetningar á flugi - eða þannig!)og svo brunum við Höddi og Árný norður strax næsta morgun. Pant hvít jól á Akureyri!! Ein bjartsýn ;)
Svo reyni ég örugglega að koma mér suður þann 28.des, hugsanlega með viðkomu í Borgarnes City, og á flug aftur til Köben 30.des. Jamms, það verður haldið uppá áramót hér í Kaupmannahöfn - spennó..

Góða helgi darlings..

14 nóvember 2007

afmæliskveðja

Nóvember er mánuður afmælanna. Sigrún vinkona er tuttugu og ellefu ára í dag, eins og hún segir sjálf ;) ég er sko sammála henni að þetta hljómar miklu betra er þrjátíu og eins.. he he

Til hamingju með daginn Sigrún mín!!

Annars er lífið hér bara skóli skóli skóli og skítakuldi!

sd

13 nóvember 2007

Áfram Helle!

Það eru kosningar hér í Danmörku í dag. Mér er sagt (af mínum nánustu) að halda með Helle og hennar gengi. Það lítur nú samt ekki of vel út fyrir okkar fólk.. er mér sagt. En við vonum það besta. Klaus fór í rauðum bol í vinnunna í dag í tilefni dagsins og varð hálf hneykslaður þegar ég sagðist ekki eiga slíkan lit í mínum fataskáp.. og það hefur sko ekkert með pólitískar skoðanir mínar að gera - sem eru reyndar hallærislega litlar. Lang oftast kýs ég bara það sem mér er sagt að kjósa - eða bara gleymi því. Það er nú skömm að segja frá þessu.. og ég ætti sennilega að sleppa því.

sei sei..

10 nóvember 2007

Kósí laugardagur

Kærar þakkir fyrir öll kommentin, sms-in og símtölin á afmælisdaginn! Það var æðislegt að heyra frá ykkur öllum. Fimmtudagskvöldið var ferlega huggulegt. Fórum út að borða á Restaurant Rasmus Oubæk sem er franskur veitingastaður, lítill og kósí og sjúklega góður matur!! Og á viðráðanlegu verði sem er ekki verra. Ef þið eruð einhvern tíma hér í bænum á köldum degi þá mæli ég sko með að fara þangað inn og panta steikt Foie Gras með eplum og rauðvínsglas með... ummmm.. það hlýjar manni sko niðrí litlu tá!! Og er alveg hrikalega gott. :)

Í morgun komu svo Rasmus (bróðir Klaus),Mie, Luna og Jonas í brunch. Buðum uppá hrærð egg, beikon, steikta tómata, brauð, brie, eðal spægipylsur, amerískar pönnukökur, nýpressaðan djús, frískandi melónu og hágæðakaffi að sjálfsögðu. Eftir það fórum við Klaus svo niðrí bæ að skoða í búðir til að fá smá hugmyndir af jólagjöfum. Var að vonast til að ég kæmist í smá jólaskap en það er bara svo bjart eitthvað ennþá að það gerist ekki neitt! Það er eins og það þurfti að vera endalaust myrkur úti svo ég komist í gírinn!! En það vantar sko ekki kuldann!

Núna er bara rauðvíns og kertaljósa stemmning í holunni okkar - og eldrauðar kinnar eftir allan vindinn ;)

En elsku Hörður afi minn á afmæli í dag og við óskum honum innilega til hamingju með daginn!

knús,
sd

07 nóvember 2007

Mætt í netheima aftur..

jamms.. erum komin með alvöru net tengingu núna. Það er víst ekki hægt að sníkja netið af nágrannanum alltaf hreint - sérstaklega eftir að hann flutti út og reif allt úr sambandi! he he..

Það er nú mest lítið að frétta síðan síðast - búin að liggja með kvefpest, er nú komin uppúr rúminu en er hálf tuskuleg eitthvað og með mikinn þrýsting í ennis og kinnholum eða hvað sem þetta nú heitir.

Er orðin hundleið á þessu baðherbergi og er ekki lengur með nein markmið í gangi um hvenær á að klára þetta.. það er hvort eð er alltaf lokað þangað inn! ;)

Er síðan í einhverju pirrings kast yfir morgundeginum.. Finnst 31 ferlega niðurdrepandi tala - og miklu miklu verri en 30! Þá er nú gott að eiga ungan og fjörugan kærasta sem ætlar að bjóða gömlu sinni út að borða annað kvöld.. he he ;)

Hmmm.. þetta er nú kannski ekki mitt jákvæðasta blogg.

En ég er nú nýklippt og lituð og bara nokkuð ánægð með það - fór á nýja stofu, helmingi ódýrari en ég er vön að fara. Var soldið stressuð fyrst en svo var bara hárgreiðsludaman íslensk sem auðveldaði öll samskipti. Þær eru víst þrjár íslenskar sem vinna þarna. Ég hafði ekki hugmynd um það. Rambaði bar inná þessa stofu sem er rétt hjá skólanum og bað ekki um neinn sérstakan. Týpískt.

Eru ekki annars allir hressir??

Knús á línuna!!